EÐALVÍN OG ÓDÝRT KASSAVÍN
Minni sumra stjórnmálafræðinga í háskólasamfélaginu er stundum eins og ódýr vín sem kaupa má í sjoppum í útlöndum, eða kassavín. Stundum hrá, oft súr, og verða flest ódrekkandi um það bil sem menn klára úr fyrsta glasinu. Það er ekki hlutverk stjórnmálafræðinga í akademíunni að enduróma hagsmuni framkvæmdalandsins eða mæna upp í það eins og hundar uppí grammafón. Hlutverk þeirra er að setja atburði í samhengi, sögulegt, samhengi dagsins og þeir eiga að hafa innsæi á grundvelli fræða og reynslu til að greina atburðina til upplýsingar fyrir okkur sauðsvartan almenning. Þeir gætu sem sé lært af félaga sínum Hannesi. Honum verður ekki borið á brýn að muna ekki eða skilja. Meirihlutinn féll í Reykjavík í gær vegna ágreinings um það sem einu sinni var eitt af fjöreggjum Sjálfstæðisflokksins, Orkuveitu Reykjavíkur, eða Vatnsveituna og Hitaveituna, fyrir þá sem eldri eru. Meirihlutinn féll af því að upp kom ágreiningur um það í Sjálfstæðisflokkunum hverjum skyldi seld verðmætin sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík lagði grunn að og almenningur í Reykjavík skóp. Hin nýja forysta í Sjálfstæðisflokknum sá ekkert athugavert við að eiga viðskipti með reitur Orkuveitunnar við eigendur Glitnis. Það gerði hins vegar gamli Sjálfstæðisflokkurinn. Hann spyrnti við fótum og gerði sitt til að koma í veg fyrir kaupskapinn. Meðal annars þeir sem einhverjir eigendur Glitnis gerðu atlögu að í auglýsingum fyrir alþingiskosningar í vor. Meirihlutinn féll í Reykjavík vegna átakanna milli gamla Sjálfstæðisflokksins og nýju forystunnar. Forystunnar sem boðar í blaðaauglýsingum þessa dagana haustferð með sjálfstæðisfólki í Reykjavík um helgina. Ein ástæðan fyrir því að Davíð Oddsson gerði það sem enginn hafði áður gert, að fara fram gegn sitjandi formanni Sjálfstæðisflokksins, var sú niðurlæging sem flokkurinn hafði mátt þola á landsvísu undir forystu Þorsteins Pálssonar næstu fimm ár á undan. Hann stýrir nú Fréttablaði Baugs og er þar með gömlum aðstoðarmanni sínum Ara Edvald í spunaverksmiðju Hringsins. Undanfarið hefur mátt greina meiri velvild í garð hinnar nýju forystu Sjálfstæðisflokksins í tveimur blöðum, Fréttablaði og 24Stundum. Hefur þetta einkum komið fram í afstöðunni til ríkisstjórnar Geir H. Haarde. Velvildin hefur á stundum nálgast fleðulæti. Hvorki blöð þessi né hin nýja forysta hafa skotið skildi fyrir Davíð Oddsson seðlabankastjóra þegar vegið hefur verið að honum beint og hann sakaður um mistök í hagsstjórn eða hann gagnrýndur með evrugjálfri og ESB. Ærin ástæða hefur mörgum þótt til að grípa til varna fyrir hann sem embættis síns vegna er nú "stílvopn laust í höndum". Morgunblaðið hefur á sama tíma bæði haldið ró sinni og hagsmunum gamla Sjálfstæðisflokksins fram, flokksins sem er andhverfan við ódýr sjoppuvín, höfugt vín sem kann að eldast. Gamli flokkurinn var þungur eins og vínið. Hann lét ekki bjóða sér hvað sem er. Þegar Davíð Oddsson var spurður um Sjálfstæðisflokkinn og framboðið gegn Þorsteini Pálssyni á fyrstu árum farsæls ferils síns sagði hann að þá hefði niðurlæging Sjálfstæðisflokksins orðið mest þegar menn létu henda flokknum út úr stjórnarráðinu við Lækjartorg. Þeir sem það gerðu kembdu ekki hærurnar í stjórnmálum. Nú gæti nýtt niðurlægingartímabil Sjálfstæðisflokksins verið að hefjast með því að náinn samverkamaður utanríkisráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde formanns Sjálfstæðisflokknum kastar flokkunum út úr Ráðhúsi Reykjavíkur. Stjórnmálafræðingar háskólasamfélagsins telja af og frá að útkastaragengið í Ráðhúsinu spilli ríkisstjórnarsamstarfinu. Hafi þeir rétt fyrir sér er eðalvínið þrotið og kassavínið eitt eftir. Er það ekki Ögmundur?
Kveðja,
Ólína
Umhugsunarvert. Þakka bréfið Ólína.
Ögmundur