EFTIRFARANDI ÓSKAST UPPLÝST...
Sæll Ögmundur.
DV undir stjórn Reynis Traustasonar og Jóns Trausta Reynissonar hafa sýnt góða takta í fréttamennsku síðasta árið. Blaðið hefur upplýst fjölda margt um baksvið bankahrunsins og veitt okkur innsýn í það endalausa dellumakerí sem bankadrengirnir aðhöfðust áður en umheimurinn uppgötvaði takmörkun þeirra og vitleysugang.
Síðast afhjúpaði DV Bjarna Ármannsson enn einu sinni þegar blaðið sagði frá að 800 milljónir króna sem félag hans tók að láni þyrfti líklega að afskrifa. Fín frétt hjá DV.
Hinir fjölmiðlarnir, þeir sem eru seinni til og þykjast sjálfir vera vandari að virðingu sinni, mættu mjög gjarnan upplýsa fyrir okkur eftirfarandi: Hvaða þingmeirihluti var það sem bjó til lagaumgjörðina um eignarhaldsfélögin? Hver sat í forsæti í efnhags- og viðskiptanefnd þegar fjallað var um frumvarpið sem firrir menn ábyrgð á fjárhagslegum gjörðum sínum? Hver voru rök meirihlutans fyrir ábyrgðarfirringunni? Hverjir greiddu atkvæði með skattareglum um eignarhaldsfélög?
Upplýsingar af þessu tagi eru líka fínar fréttir, og afhjúpandi. Hvaðan komu hugmyndirnar um ábyrgðarlaus einkahlutafélög ábyrgðarlausra fjármálasnillinga sem aldrei hafa séð út fyrir pilsfald ríkismömmunnar? Ætli það hafi verið þriggja bókastafa samtökin sem settu fram hugmyndinar, eða eigum við að þakka hugmyndasmiðum frjálshyggjunnar í Verzlunarráði Íslands og síðar Viðskiptaráði fyrir gjörningin? Hverjir ætli hafi setið þar og hverjir sitja þar enn? Það eru líka fréttir. Áfram DV - þið eigið leikinn! og þið hinir: Upp með sokkana,
kveðja ,
Gunnar