Fara í efni

EFTIRLAUNALÖGIN AFNUMIN FYRIR JÓL?

Sæll Ögmundur.
Ein lítil spurning. Var það misskilningur hjá mér að til stæði að hraða afgreiðslu á frumvarpi Valgerðar Bjarnadóttur um afnám laga um eftirlaun ráðherra, þingmanna og fl.? Verður frumvarpið ekki afgreitt fyrir jól?
Haffi

Þakka þér bréfið Haffi. Við í VG gerðum okkar til að láta málið koma strax á dagskrá. Í mínum huga er ekkert sem ætti að þurfa að koma í veg fyrir hraða afgreiðslu, nema bara eitt: Viljaleysi.
En jólin eru ekki komin Haffi. Enn er gott ráðrúm til að afgreiða málið fyrir jól. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að Samfylkingin hafi verið með eintómar blekkingar í þessu máli. Formaður flokksins baðaði sig í fjölmiðlum fyrir kosningar í krafti yfirlýsinga um afnám þessara illræmdu laga. Nú er frumvarp komið fram. Allir gerþekkja málið. Ekkert til fyrirstöðu að klára það þegar í stað - eða hvað?
Ögmundur