Fara í efni

Eiga athafnaskáld erindi í krana?

Ég hlustaði á Bryndísi Hlöðversdóttur, þingflokksformann Samfylkingarinnar, í hádegisfréttum ríkisútvarpsins sunnudaginn 16. mars. Í tilefni frestunar Alþingis nefndi hún það sérstaklega hversu slæmt það hefði verið að Vinstri grænir hefðu komið í fyrir að vatnsveitufrumvarp ríkisstjórnarinnar næði fram að ganga. Hvaða sjónarmið liggja að baki þessari afstöðu Bryndísar? Er það kannski partur af nýju jafnaðarstefnunni að einkavæða vatnsveitur landsmanna? Mun það skila auknum jöfnuði í samfélaginu að hleypa athafnaskáldum, íslenskum eða útlendum, í kranana og ofan í klósettkassana okkar? Er það kannski stór partur af þeim kjarabótum sem láglaunafólki, öldruðum og öryrkjum er nú lofað í aðdraganda kosninganna? Ég frábið mér slíka jafnaðarmennsku og það gerir vafalaust þorri landsmanna. Stefna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er ljós í þessu máli en það er afar brýnt að upplýst verði með afdráttarlausum hætti hver stefna Samfylkingarinnar er. Það hljóta að fara að renna tvær grímur á félagshyggjufólk, og þar á meðal fjölda stuðningsmanna Samfylkingarinnar, ef þannig er í pottinn búið á flestum sviðum að einkavæðing sé nú lausnarorðið á þeim verkefnum sem hingað til hafa fortakslaust verið talin heyra undir almenna samfélagslega þjónustu í eigu opinberra aðila. Svar óskast sem allra fyrst.

 

Þorleifur Óskarsson