Eiga komandi kosningar að snúast um geðslag forsætisráðherra?
Sæll Ögmundur.
Á köflum finnst mér þjóðmálaumræðan bæði ófrjó og þreytandi. Áberandi er að Samfylkingin virðist vera með forsætisráðherra á heilanum. Forystufólk hennar talar um skapferli Davíðs og stjórnunaraðferðir hans, hann sé orðinn allt of geðstirður illskeyttur. Nú sé kominn tími til að skipta um, Davíð sé búinn að sitja svo lengi og valdið spilli með árunum.
Vissulega skipta persónur máli í pólitík en er þetta gagnleg umræða? Ekki finnst mér það. Mér finnst hún hins vegar til vitnis um málefnafátækt og ég fæ raunar ekki betur séð en Samfylkingin hafi á ansi mörgum sviðum gengist undir ríkjandi trúarbrögð frjálshyggju og einkavæðingar sem núverandi ríkisstjórn hefur praktíserað af stakri ræktarsemi en lítilli fyrirhyggju á undanförnum árum. Er nema von að maður spyrji, eiga kosningarnar í vor að snúast um það eitt að skipta um “biskup”?
Halldór Ásgrímsson hefur boðið fram krafta sína, Samfylkingin á eftir að útnefna sinn kandídat en á sér þá frómu ósk að geta staðið að biskupskjörinu ein með framsóknarmönnum. En hverju mun slík stjórn breyta, hverju mun hún skila almenningi? Aukinni velsæld? Skapbetri forsætisráðherra? Minnkandi vesældómi og þjónkun gagnvart utanríkisstefnu Bandaríkjanna? Aukinni áherslu á velferðarmál? Eða verður kannski aðalbreytingin sú að nýi biskupinn leggist í vísitasíur til Brussel og selji þar sjálfstæði þjóðarinnar og eignir?
Kveðja, Þórður.
Heill og sæll Þórður.
Mér finnst þú hitta naglann á höfuðið. Því er nefnilega ekki að neita að á sama tíma og keyrð er áfram glórulaus einkavæðingar- og stóriðjustefna í bland við nánast takmarkalausa þjónkun við erlend hernaðarveldi ágerist persónugerving stjórnmálanna. Við slíkar aðstæður gerist það að menn hætta að sjá skóginn fyrir trjánum; glata heildarsýn en fara að einblína á skapbrigðin í ráðherrasveitinni. Auðvitað getur það skipt máli hvernig valdamikið fólk kemur fram við samferðamenn sína en af því megum við þó aldrei verða svo upptekin að við gleymum að stjórnmál eiga fyrst og fremst að snúast um málefni og stefnu við landsstjórnina.
Í Vinstrihreyfingunni grænu framboði höfum við teflt fram stefnu í atvinnumálum sem byggist á fjölbreytni, vel útfærðum tillögum til breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu í stað núverandi kvótakerfis og hugmyndum um uppstokkun í skatta- og velferðarmálum. Við teljum að eftir áralangt niðurrif á sviði velferðarmála sé orðin knýjandi þörf á því að hefja kröftugt uppbyggingarskeið þannig að næsta ríkisstjórn rísi undir sæmdarheitinu Velferðarstjórn. Við erum sannfærð um að engin ríkisstjórn án aðildar VG mun bera það heiti með réttu. Auk áherslu okkar á velferðarmálin verður aldrei of oft minnt á það að við erum eini flokkurinn sem er ekki daðrandi við einkavæðingu og aðrar pólitískar tískusveiflur, við stöndum vörð um náttúru landsins en setjum ekki fram tillögur um þjóðgarð við virkjunarlónin til að slá ryki í augun á fólki. Menn vita hvar þeir hafa okkur þegar kemur að velferðarmálum, lýðræði, sjálfstæði þjóðarinnar og við tökum hjartanlega undir með þér að auðvitað eru það málefnin sem fyrst og fremst skipta máli.
Með kveðju, Ögmundur