EINKAVÆÐING OG SKERT ÞJÓNUSTA
Ég sá ekki Silfur Egils í dag en las pistil þinn um þáttinn. Það er með ólíkindum að fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar skuli leyfa sér að mæra einkavæðinguna. Ég er þér hjartanlega sammála Ögmundur að þessi stefna hefur ekki fært þjóðinni varanlega hagsæld. Við skulum ekki láta blekkjast af stundargróða af völdum braskvæðingar þjóðfélagsins. Þessa dagana er verið að loka útíbúi Íslandspósts í Skipholti í Reykjavík. Enn ein lokunin. Landsbyggðin hefur þó farið mun verr út úr því dæmi en höfuðborgarsvæðið. Það er af sem áður var að Pósturinn nyti sambýlisins við Símann. Nú er hlutafélaginu Íslandspósti hf hins vegar settar strangar markaðsskorður. Síminn er hins vegar löngu orðið fjárfestingarfyrirtæki fyrir eigendur sína og hagar sér sem slíkt – jafnvel þótt við hefðum getað verið óheppnari með eigendur. Hér sendi ég slóð inn á eina frétt frá í sumar en hún er nokkuð dæmigerð um þróunina:
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item74682/
Með kveðju,
Grímur
107 Reykjavík