EINOKUNARVERSLUNIN Á VORUM DÖGUM!
Kæri Ögmundur...
Ég verð að segja að ég er heilshugar sammála Hreini Kárasyni sem skrifar um fjárfestingar lífeyrissjóða launamanna, á vefsíðunni þinni.
Ég vil þó bæta við að ég sé ekkert rangt við að ákveðið hlutfall fjárfestinganna fari beint í félagsaleg sameignarfyrirtæki verkalýðsins, einmitt þeirra sem eiga lífeyriðssjóðina. Hér mætti nefna fjölmiðlarekstur og kaupfélög sem væru rekin með nútíma tækni og formi, sem sé "rétt" án okurs og öllum til hagsbóta! Ég er sannfærður um að það væri hægt að lækka núverandi verð á innfluttri neysluvöru um minnst helming og í sumum tilfellum allt að 80%... Og græða samt.
Ég er hárviss um að Íslendingar yfirleitt geri sér ekki í hugarlund hvernig verið er að svindla og okra á þeim í innflutnings-, heildsölu- og smásöluversluninni yfirleitt! Svindlið byrjar strax við frumkaupin hjá dreifingar- og framleiðsluaðilunum erlendis (og hérlendis) og endar með stórfelldu okri á íslenskum almenningi. Það gersit þegar gamla konan opnar budduna sína við peningakassann. Hvernig skattsvikin eiga sér svo stað, er sér mál!
Það er ekki nóg með að íslenskir viðskiptavinir verði að þola að vera "þjónað" af láglauna útlendingum sem geta ekki skilið né tjáð sig á íslensku, heldur er verið að okra stórlega á þeim. Það er ekki lengur hægt að fara í hverfisbúðina og tala beint við kaupmanninn sem maður þekkir, því einokunarverslunin hefur gleypt verslunina og læst klóm sínum í þjóðfélagið eins og kóngulóarvefur, sem gefur hinni dönsku fyrr á öldum, ekkert eftir. Spurningin er hvar nú sé að finna staðgengill Skúla Magnússonar Fógeta til að tukta græðgishyskið til, eða að reka það af höndum þjóðarinnar? Það sárgrætilega við þessa svívirðu, er að einokunin hefur verið sköpuð á forsendu frjálsrar samkeppni og einkaframtaksins. Að tína dót í körfur í samvinnu við kaupmanninn eins og ASÍ hefur verið að gera til að upplýsa landsmenn um hverjir okri mest hverju sinni, er allsendis ónýtt og til einskis. Það verður að rannsaka þetta mál mikið nánar allt frá byrjun ferils vörunnar þar til að farið er ofan í buddu viðskiptavinarins á Íslandi. Til dæmis hvað oft hafa viðkomandi keypt vöruna af sjálfum sér, eða pínt framleiðendur til að selja öðrum á mikið hærra verði en þeim sjálfum? Um leið skal rannsaka hvað varð um peningana sem áður voru greiddir sem matarskattur. Fór hann í vasa kaupmannsins sem varla var á bætandi, eða varð hann til þess að vöruverð lækkaði til almennings, sem ég hef ekki orðið var við!
Úlfur