Fara í efni

EKKI Í ANGIST AUGNABLIKSINS!

 Heill og sæll Ögmundur.
Ég hef miklar áhyggjur varðandi þessa sölu ef af verður. Ég hef alltaf kosið Samfylkinguna en verð að segja að ég fæ hroll þegar ég heyri í ráðherrum þeirra og þingmönnum, það er hægt að slá ryki í augu allra með skjalli, vinahótum og og vinatengslum.
Landið okkar er það dýrmætasta sem við eigum, það er ein af auðlindum þjóðarinnar og á að þjóna íbúum þess. Ég hvet þig til að standa föstum fótum og hafna undanþágum sem ganga út á það að sá sem falast eftir Grímsstöðum eigi svo og svo mikla peninga, þekki einhvern íslending og elski ljóð. Ég auglýsi eftir einhverri stefnumörkun um nýtingu  landsins gæða, að sett verði  lög og reglur um að ekki verði hægt að leggja bújarðir undir sumarleyfislendur auðmanna. Ég er viss um að hægt er að finna mörg  fordæmi um  kvaðir á uppkaupum jarða hjá nágrönnum okkar.
Ég veit til dæmis að Danir hafa ekki leyft þjóðverjum að kaupa upp lóðir eða sumarbústaði í landinu, veit meira segja um dæmi þess að  íslendingar þurftu  að selja bústað sem þeir festu kaup á á eyjunni Mön. Auk þess er ekki hægt að breyta verðmætum bújörðum í leiksvæði til einkaafnota.
Þar fyrir utan er það einsýnt að ef við íslendingar eigum að fara að keppa við auðmenn veraldar um landsins gagn og gæði er búið að gengisfella möguleika okkar um aldur og æfi til að leggja stund á búskap eða að yrkja jörð hér á okkar eigin landi. Það getur enginn ráðið við þá verðmiða sem þá verða settir á jarðir og landnýtingu. Ef þörf er á einhverri hugarfarsbyltingu hér á Íslandi þá er það mikilvægi gróðurs, jarðar og ræktunar.
Ég er mjög hissa á hvað fáir eru að velta fyrir sér nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í ræktunargeiranum. Ef stefnt er að raunverulegu fæðuöryggi þá liggur það í tilraunum og nýjungum í ræktun  á grænmeti, ávöxtum, og sjávargróðri. Við gætum ræktað svo miklu fleiri tegundir en við gerum nú þegar. Nefni sem dæmi hampinn, ekki þann sem gefur vímuna heldur þann sem notaður er í akuryrkju og gefur bæði verðmæt prótein og olíur til manneldis svo og einstakar trefjar sem nýtast á margan hátt. Mér er þetta hjartans mál og vona að þú sjáir þérfært um að standa gegn þessum stríða staum þeirra sem segja að hér stefni allt í glötun ef við tökum ekki öllum gyllitilboðum sem berast.Við vitum að í svona árferði eru hrægammar á ferð, við erum á hættusvæði  mismununar og valdbeitingar í krafti fjármagns.
Baráttukveðjur, megi langtímahagsmunir ráða för hverju sinni, ekki angist augnabliksins.
Elsa D Gísladóttir,
áhugamaður um eflingu ræktunar og nýrra búskaparhátta.