EKKI ÖLLUM TREYSTANDI
Sæll Ögmundur.
Mig langar bara til að þakka þér fyrir allt sem þú ert að gera. Þú stendur vaktina betur og traustar en nokkur annar. Ég hef fylgst með þér á þingi og sá meðal annars ræðu þína um niðurskurðinn á mánudag. Hún bar af. Það sem er að gerast er hræðilegt. Ég trúi ekki öðru en að kosningar verði í vor því að þessi ríkisstjórn verður að fara frá. Þau eru aum. Það eru alltof fáir sem gera sér grein fyrir því hvað verið er að gera velferðarkerfinu. Þetta eftirlaunafrumvarp sem þau núna neyðast til að leggja fram segir allt sem segja þarf. Þau eru fljót að afgreiða niðurskurð á alla aðra en sjálf sig. Ég mun ekki gleyma hvernig þú einn hefur staðið í því máli sem öðrum. Ég gleymi heldur ekki þegar þú gagnrýndir bankana og útrásina og allt sukkið og fékkst á þig harðar árásir nær allra annarra sem nú þykjast vera frelsandi englar í spillingunni. Það er engum hægt að treysta nema þeim sem gagnrýndu spillinguna þegar hún stóð. Samfylkingin sem og allir aðrir áttu ekki orð þegar þú leyfðir þér að gagnrýna bankana. Nú þykjast þau hafa varað við þessu. Það er lygi. Ég vil þig sem næsta forsætisráðherra til að byggja hér upp úr rústunum og hreinsa til. Þú ert prinsipmaður og heiðarlegur, það segja mér allir sem til þekkja. Það er það sem vantar núna, heiðarleika og prinsipfólk sem þorir. Gangi þér vel og guð geymi þig og fjölskyldu þína yfir jólin.
Hildur og fjölskylda