Fara í efni

EKKI PÚKKA UPP Á SPILAVÍTISFURSTA Í OKKAR NAFNI

Ég les um það í fjölmiðlum að forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú hafi þegið boð um að vera viðstödd embættistöku Alberts II. fursta af Mónakó. Okkur er sagt að þessu fylgi veisluhöld, hersýning og fótboltaleikur "í tilefni embættistökunnar." Eflaust er það rétt, sem Morgunblaðsvefurinn segir okkur "að ýmsir þjóðarleiðtogar víðsvegar að úr Evrópu" verði einnig viðstaddir embættistökuna. Nú er Monakó furstadæmi sem fyrst og fremst byggir á spilavítum og þar með grundvallað á afar vafasömum grunni. Mér finnst forsetanum frjálst að heimsækja þetta fólk sem prívatpersóna en vafasamt að gera það í okkar nafni. Í nafni þjóðarinnar á ekki að púkka upp á kónga, aðalsmenn og spilavítisfursta. Við gerum það gagnvart þjóðhöfðingjum Norðurlandanna en þó fannst mér komið yfir ystu mörk þegar fjölmiðlum þótti allt standa og falla með því að Ólafur Ragnar kæmist í brúðkaup sonar Margrétar drottningar Danmörku! Ég skrifaði þér af því tilefni reyndar einnig þá.
Sunna Sara

Sæl Sunna Sara og þakka þér fyrir bréfið. Það er rétt sem þú segir að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þú viðrar skoðanir þínar á kóngadekri hér á síðunni og sló ég upp í orðaleit á síðunni og fann bréfi ð sem þú vitnar í og er það HÉR. Í þessu bréfi vitnar þú í mín skrif um svipað efni og kemur þar fram að við erum nokkuð sammála í þessum efnum.
Með kveðju,
Ögmundur