Fara í efni

EKKI SELJA ÍSLAND!!!

Sæll Ögmundur.
Ekki selja Ísland. Ögmundur ég elska landið mitt, land barnanna minna og þinna, land forfeðra minna og þinna. Landið sem við fólkið og íslenska þjóðin eigum og berum skyldu til að virða og varðveita með ýmsu móti. Við erum fámenn þjóð í litlu landi í stórum heimi en þetta eru okkar heimkynni og forréttindi að við skulum fá að lifa í allsnægtum þessarar náttúru.
Því í ósköpum vill ríkur maður frá stórri ríki voldugri þjóð kaupa hluta af litla landinu okkar? Er það ekki augljóst? Er þetta ekki þeirra útrás? Er ekki nóg að verslað sé með lönd og hráefni í Afríku og ráðskast með þjóðir við Miðjarðarhafið og mörgum árum síðar reynt að bæta fyrir misgjörðir valda- og græðgismanna. Nú segjum við stopp. Þó svo að útlendingur með peninga sýni okkar litla hrjóstruga landi áhuga þá seljum við ekki landið okkar. Frekar en að selja frá okkur aðrar auðlidir okkar.
Á hverju hefur hann orðið svo ríkur að geta falast eftir hluta litla landsins? Og hvernig skyldi honum hafa dottið þetta í hug? Er hann að framfylgja útrásarstefnu Kínverja eða eru einhverjir vinir hér heima sem græða á þessu? Nú er ekkert sem heitir, nú bergðumst við af skynsemi ekki skyndi. Við skulum hugsa læra og nýta okkur þessa stöðu sem litla þjóðin okkar er sett í. Verum einu sinni framsýn, þá á ég við ábyrgðina sem þú og við höfum gagnvart íslenskri náttúru. Ég held að hann sé mjög framsýnn. Eru ekki jöklar að bráðna, Norðurpólinn að hverfa og skipaleið að opnast? Auðvitað veit hann hvað hann er að gera. Ekki selja Ísland.
Áhugi ráðamanna þjóðarinnar hefur verið ótrúlegur. Hvernig stendur á því að þeim finnist þetta yfirhöfuð vera möguleiki? Erum við enn með sama fólkið í brúnni flokkanna og einstaklinga og fjölskyldurnar sem hafa blóðmjólkað landið okkar sér og fáum öðrum til tekna, en almenningi sem ég kalla þjóðina okkar til sultar og seyru. Hættum, rísum upp berum virðingu fyrir því sem moldin, bergið, vatnið, eldurinn og ísinn gefur og því sem við eigum enn hreint.
Hvernig getur sjálbærni á Íslandi aukist ef við seljum landið okkar. Við getum ekki verið svo í nauðum stödd að við seljum auðæfi okkar, er ekki eitthvað bogið við þetta? Við hljótum að geta selt afurðir en ekki hráefnið sjálft. Útrás stórríkja á ekki að bitna á okkar gjöfulla litla ferska landi. Okkur ber skylda til að varðveita ósnortna náttúru. Það er deginum ljósara að peningamenn myndu borga hvað sem er og ganga að hvaða skilmálum sem er til að eignast slíka auðn, veðurofsa og harðneskju eins og Ísland litla er gætt. Hvers vegna skyldi það vera til sölu?
Við erum í nánum tengslum við landið okkar og hnattstaða þess lítur út fyrir að verða allt önnur en áður. Ferðamenn koma til landsins og upplifa nálgun við náttúruöflin sem þeir hafa ekki fundið til áður. Þeir eiga ekki orð til að lýsa fegurðinni í ósnortnu landi okkar. Hverjir vilja ekki eiga annað eins, við eru forréttinda þjóð.
Fósturjörðin okkar iðar af lífi. Landið okkar andar, stynur, blæs og ólgar af lífi. Hvernig væri að ráðamenn þjóðarinnar hættu að hugsa um gjaldmiðilinn peninga í vasa sinn. Landið okkar er miklu stórfengnari gjaldmiðill. Fjármálakerfi heimsins er orðið úrelt en samt kemur til greina að senda hluta landsins í þá sorptunnu. Ég elska og virði íslenska náttúru, fá að upplifa verðurhaminn, skin og skúra, stilluna á undan storminum, öflin í iðrum jarðar og andstæður í náttúrunni. Kenna afkomendum okkar að meta landið okkar.
Ég treysti ekki lengur ráðamönnum þjóðarinnar og það er einkennilegt að valdið til að selja landið okkar sé í þínum höndum Ögmundur. Þess vegna segi ég: Ögmundur vertu framsýnn, ekki selja landið okkar. Með kærri kveðju, Ragnhildur Birgisdóttir