Fara í efni

EKSTRABLAÐIÐ, DV OG FORMAÐUR SAMFYLKINGARINNAR

Sæll Ögmundur.
Ég sef alveg sæmilega á nóttunni þótt mér finnist stundum orðræðan í fréttum svo klisjukennd að það stappar nærri hinu ómögulega. Til dæmis þegar viðskiptaráðherra boðaði að hann hygðist láta kanna af hverju byrgjar væru þessa dagana að hækka matvöruverð sem skýrist af þeirri einföldu ástæðu að nú er að koma til framkvæmda enn einn liðurinn í skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Eins og þessi mál eru vaxin sýnist manni að það sé beinlínis stefna ríkisstjórnarinnar að gefa byrgjum kost á því að ná til sína skattlækkun á matvælum á kostnað neytenda. Að öðrum kosti væri viðskiptaráðherra ekki að kanna heldur væri hann að tryggja að "yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar" næði fram að ganga. En hann er ekki spurður um það af þrautreyndum fréttamönnum. Ekki fremur en sendiherrann sem hafði þann boðskap að flytja okkur úr höfðustöðvum OECD að lykilatriði til að laga innflytjendur að íslensku samfélagi væri að koma til móts við innflytjendabörn í skólum. Það er rétt hjá sendiherranum og ekki sérlega frumlegt. Það er hins vegar áhugavert af hverju skólarnir geta ekki sinnt þessu hlutverki sínu. Á sama hátt er það furðulegt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skuli ekki vera spurð um hvort henni þyki vænlegt til forystu í íslenskum stjórnmálum að gera að sínum úr sér gengin slagorð Ekstrablaðsins danska og DV þegar það blað fór ekki beint með himinskautum, þorum þegar aðrir þegja. Eða þarf hún kannske ekki að segja kjósendum hvað Samfylkingin, Ekstrablaðið og DV eiga sameiginlegt? Eins og ég sagði ég missi ekki svefn, en mætti ekki spyrja örlítið meira?
Kv. Ólína