Fara í efni

ENDURREISNARSTARF HAFIÐ Í FRAMSÓKN - EÐA ÞANNIG

Í nýlegri skoðanakönnun kom Guðni Ágústsson út sem vinsælasti ráðherrann í ríkisstjórninni. Ekki gef ég mjög mikið fyrir slíkar kannanir. Þó verður að líta á þær sem vísbendingu um vinsældir. Hlýtur það ekki að bera vott um lánleysi Framsóknar að telja það helst til árangurs í boðuðu "endurreisnarstarfi" að koma Guðna Ágústssyni, vinsælasta ráðherranum út í hafsauga? Þetta sé meira að segja sérstakt forgangsverkefni. Annað var ekki að skilja á yfirlýsingum Halldórs flokksformanns í fréttum í gærkvöldi en að einmitt þetta stæði til að gera. Og konurnar slást ekkert síður en karlarnir. Þannig sagði Jónína Bjartmarz að ef formaður og varaformaður ættu að axla ábyrgð af slæmri útkomu flokksins í sveitarstjórnarkosningunum þá ætti öll forystan að víkja. Þar átti hún greinilega við ritara flokksins en sú staða er á hendi Sivjar Friðleifsdóttur, keppinautar Jónínu um formanns- eða varaformannsstólinn!
Það er reglulega lærdómsríkt að fylgjast með endurreisnar- og uppbyggingarstarfi Framsóknarflokksins. Hvað skyldi þurfa að byggja mikið upp og endurreisa með þessum aðferðum til að ganga endanlega að Framsóknarflokknum dauðum? Kannski dugar sumarið?

Sunna Sara