Fara í efni

ER ALÞINGI BÚIÐ AÐ GEFA ÚT HEIMILDIR?

Góðan dag Ögmundur .
Var í Englandi alla síðustu viku á námskeiði og þar á meðal voru nokkrir óttaslegnir eldri borgarar sem óttuðust um ellilífeyri sinn út af braski Íslendinga. Þeir voru svo liprir við mig að fá aðgengi að netinu þannig að ég gat lesið mig til um hvað væri eiginlega í gangi og þá kom bomban, hryðjuverkalögum beitt á Íslendinga. Talin voru upp 10 stærstu sveitarfélög Englands sem sett höfðu skattpeninga timabundið í sjóði KB banka yfir 80 milljónir punda og til að toppa þetta höfðu 15 deildir bresku lögreglunnar sett 18 milljónir af rekstrarfé þar á meðal Metró en þessir aurar voru ætlaðir til viðhalds og tækjakaupa lögreglunnar. Ég var ekki hissa á að einhver yrði reiður yfir því að stugga við geitungahreiðri.
Kom síðan heim á föstudagskvöld og notaði gærdaginn til að fara yfir alla upptekna fréttatima sem frúin hafði séð um fyrir mig. Þátturinn með Davíð var glannalegur þar sem honum mátti verða ljóst eins og Alan Greenspan og Melvin King seðlabankastjórum en tekið er eftir hverju orði sem þeir segja og ég fæ ekki séð að Davíð hafi sagt ósatt heldur þvert á móti m.v.umsagnir/þversagnir ráðherra þegar hann talar um kennitöluflakk en allt hefur þetta komið í ljós.
MBL Laugardag var tekið sérstaklega fram að Samson Global Holdings væru á góðu róli en með hvað? Verða þær eignir ekki haldlagðar enda í eigu aðalleiganda Landsbankans. FME þarf með öðrum orðum að nota innviði bankakerfisins til þess að fiska uppi alla falda bankareikninga eigenda bankanna 3 á Ceyman eyjum og öðrum fríríkjum upp í skuldirnar. Skattrannsóknarstjóri hefur þegar farið með sinn bát á þau mið til fiskjar og aflabrögð eru óljós á þessari stundu en eflaust eru einhverjir með örari hjartslátt. Ummæli fjármálaráðherra að búið sé að semja við Hollendinga um ábyrgðir og verið sé að semja við Breta um ábyrgðir en hvaðan á að taka það fé? Hvar kemur Alþingi inn í þessar aðgerðir? Gaf það út opna heimild til slíks? Er þegar búið að múlbinda allt og þá þurfi að endurrita fjárlögin upp á nýtt með þjóðarskuldir í mínus upp á hundruði milljarða? Nei takk fyrir. Óskabarn þjóðarinnar Eimskip er nú á krossgötum þar sem ekki var búið með formlegum hætti að ganga frá kaupum ábyrgðar á flugrekstri upp á 25 milljarða af félaginu áður en bankanum var lokað. Neyðarlögin gefa ekki framkvæmdavaldinu heimild til þess að skuldsetja þjóðina án atbeina og samþykkis Alþingis og verð ég að leggja allt mitt traust á VG um að blása til sóknar og standa vörð um þjóðarheill og um leið skulum við hafa hugann hjá þeim starfsmönnum bankageirans sem í hundraðavís eru að missa vinnuna svona rétt fyrir dimmasta skammdegið og ljóst að brestir munu koma í hjörtu þessara einstaklinga.
Þór Gunnlaugsson

Þakka þér bréfið Þór. Ábendingar þínar eru hárréttar. Alþingi hefur ekki gefið út neinar heimildir til þeirra samninga sem þú nefnir og ekki leitað eftir samstarfi við stjórnarandstöðu.
Kveðja,
Ögmundur