Fara í efni

Er betra að selja bjór en fisk?

Fulltrúar einkavæðingarflokkanna, og má þá ekki gleyma forystumönnum Samfylkingarinnar, halda vart vatni yfir vel heppnaðri sölu á Landsbankanum. Í því sambandi hefur mikið verið um það rætt hversu merkilegir Samsonarnir séu því þeir séu með kaupunum að færa erlent fjármagn inn í landið. Fjölmiðlamenn gleypa þennan málflutning gagnrýnislaust. En væri ekki ástæða til að spyrja: hvað hafa íslenskir sjómenn og útgerðarmenn verið að gera áratugum og raunar öldum saman? Hafa þeir ekki verið að afla gjaldeyris? Er það eitthvað göfugra að selja Rússum bjór en fisk? Er ekki tími til kominn að íslenskir fjölmiðlamenn spyrji gagnlegra spurninga í stað þess að sperra bara eyrun þegar forsvarsmenn þjóðarinnar flytja sína hundalógík?
Með kveðju, Sigurður Árnason 

Sæll Sigurður og gleðilegt ár. Þetta er vissulega sjónarmið. Hins vegar má til sanns vegar færa að framleiðsla og sala á bjór geti verið góðra gjalda verð. Það er svo annað mál hvernig staðið hefur verið að sölu á þjóðbönkunum sem færðir voru upp á silfurfat eftir mikið makk á bak við tjöldin og án þess að grafist væri fyrir um það hver raunveruleg kjölfesta er í hinum svokölluðu kjölfestufjárfestum. Það sem undrar mig mest er þögn svokallaðra frjálshyggjumanna, að þeir skyldu þegja þunnu hljóði og ekki krefjast þess að bankarnir yrðu seldir á opnum markaði. Þetta er ofvaxið mínum skilningi. Eina skýringin er sú að þeir séu ófærir um að standa í fæturna gagnvart flokksforystu sinni.
Kveðja,Ögmundur