Fara í efni

ER ENGINN ÖRYGGISVENTILL?

Hér á árum áður þegar stjórnmálaflokkarnir máttu hafa mann í kjördeild til þess að fylgjast með kosningum og miðla upplýsingum úr kjördeildum, hafði Sjálfstæðisflokkurinn þann hátt á að fulltrúi hans sat og skráði niður nöfn þeirra sem komu og kusu, síðan var farið með þessa lista í Valhöll og spáð í spilin. Nú hefur komið á daginn, að hæstaréttadómararnir sem dæmdu kosningar til stjórnlagaþings ógildar, og flestir eru sjálfstæðismenn á ofanverðum sjötugsaldri, héldu að þessi plagsiður Sjálfstæðisflokksins væri "alkunnug" aðferð í öllum kosningum.
Þeir vissu ekki að mörg ár eru síðan lagt var af að flokkarnir  mættu hafa fulltrúa í kjördeild til að miðla þaðan upplýsingum, og rugluðu að öðru leyti saman þessum kosningum og alþingiskosningum. Þeir vissu heldur ekki að rafræn talning kallar á það að kjörseðlar séu auðkenndir, og jafnvel þótt hægt væri að tengja seðil við kjósanda, eins og gert er í Bretlandi til þess að hægt sé að nota ef upp kemur grunur um kosningasvindl, þá telst kosningin samt leynileg. Þeir misskildu ákvæðið um læsta kjörkassa og héldu að málið snerist um lykilinn, skildu ekki að innsigli er öruggara en lykill; ef innsiglið er brotið væri kosningin dæmd ógild, en sá sem er trúað fyrir lykli getur opnað kassa og lokað óséð.
Nú hefur þú sagt, Ögmundur, að virða beri dóm Hæstaréttar í hvívetna, annars sé réttarríkinu ógnað. En er alveg sama hvað dómar eru illa grundaðir og lýsa mikilli vanþekkingu? Hefur réttarríkið engan öryggisventil til að verja sig fyrir því að vera með Hæstarétt sem að uppistöðu til er elliærir sjálfstæðismenn?
Lína

Jú, það er til vörn. Sú vörn liggur ekki í valdboði eða að virða ekki úrskurði eða dóma  Hæstaréttar, æðsta dómstigs landsins. Vörnin liggur í hreinskilinni, sanngjarnri, opinni, gagnrýnni umræðu um niðurstöður Hæstaréttar ef fólki finnst þær orka tvímælis. Það breytir ekki niðurstöðu í einstökum málum en skapar forsendur til að styrkja grundvöll réttarríkisins til langs tíma litið.
Kv.
Ögmundur