Er Framsóknarflokkurinn á leiðinni í ræsið?
“Vinna, vöxtur, velferð” er kosningaslagorð Framsóknarflokksins að þessu sinni og eflaust hannað af einhverjum húmoristum í auglýsingaiðnaðinum. Framsóknarflokkurinn berst nú allra ötulast fyrir einkavæðingu á rafmagnsveitum landsmanna, vatnsveitum og meira að segja skólpveitunum. Allt þetta kostar vinnu en á auðvitað að stórauka velferð fjöldans, ekki síst láglaunafólks og öryrkja. Já, Framsóknarflokkurinn hefur sannarlega stórt hjarta - má ekkert aumt sjá, ekki einu sinni skólprör landsmanna.
Vinna og velferð í frárennslispípum
Varðandi skólpmálin fýsir mig að vita: Verða settir upp gjaldmælar við niðurföll á salernum, vöskum, böðum, sturtum og þvottavélum? Ef svo er gæti það orðið yfirdrifin vinna að auka velferð sína í nýja kerfinu. Ljóst er þó að flestir munu reyna að gera sitt besta á vinnustöðum, í opinberum stofnunum og víðar, jafnvel úti í guðs grænni náttúrunni til að hægja á mælunum heima hjá sér. Með því móti má vissulega auka á velferð heimilanna en það skapar vinnu hjá almenningi, krefst útsjónarsemi og hugvits. Varðandi almennt hreinlæti, svo sem böð og annað slíkt, verður líka að skera niður, dreifa álaginu. Að líkindum verða lyktareyðandi efni notuð í meira mæli en áður en eykur varla á velferðina nema hjá kaupmönnum því brúsar af slíku eru yfirleitt dýrir. En kannski er það á loforðaskrá Sjálfstæðisflokksins að lækka virðisauka af vellyktanda niður í 7% og vænkast þá hagur allra. Og auðvitað má fara í heimsóknir til vina og ættingja, rækta og styrkja tengslin við fólkið sitt, og næla sér í leiðinni í handa- og andlitsþvotta; já, bregða sér jafnvel í sturtu svo lítið beri á. Einnig er kjörið að skreppa með fjölskylduna í sund einu sinni í viku og sameina þar með tvennt; nauðsynlegt hreinlæti og holla heilsurækt. Og uppvaskinu má stilla út á svalir í hressilegri suðvestanátt, a.m.k. heima hjá mér, og sama gildir einnig um almennan þvott á fatnaði. Já, það kostar vinnu að auka á velferðina. En þannig hefur það líka löngum verið að dómi hægri manna að Guð hjálpi þeim sem hjálpa sér sjálfir. Þar hafa þeir þó verið undanskildir sem virða ekki eignarréttinn. Þeir eru lokaðir inni í fangelsum og meðhöndlaðir eins og einhverjir óbótamenn og dónar. Hinum sem stela löglega er aftur á móti hampað eins og þjóðhetjum, sumir eru kjörnir viðskiptatröll ársins og aðrir fá a.m.k. fálkaorðuna.
Blómstrandi neðanjarðar-hagvöxtur
En vöxturinn - hvar mun hann skila sér háttvirtir framsóknarmenn? Ég fæ ekki betur séð en Ræsi og rör hf. og önnur væntanleg stórveldi í skólpþjónustunni muni vaxa og dafna mest og best. Já, kjörorðið fyrir síðustu kosningar var “Fjölskyldan í fyrirrúmi” en framsóknarmenn sturtuðu öllu slíku smjaðri niður daginn eftir að þeir voru búnir að plata atkvæði út úr 18% landsmanna. Skólpmálin munu hins vegar fá örugga framrás, það geta menn reitt sig á. Og þá geta framsóknarmenn sturtað velferðar- og fjölskyldupakkanum sínum niður eina ferðina enn og nú í einkavæddar skólppípur. Loforðapakkinn fyrir fjölskyldurnar er að vísu óvenjustór að þessu sinni en Ræsi og rör hf. og önnur skólpfyrirtæki munu örugglega veita dyggum velunnurum sínum góðan magnafslátt.
Aldrei hefur hann gengið í hægðum sínum
Það er lítilsvirðing við kjósendur, lifandi og reyndar einnig látna í tilviki Framsóknarflokksins, að taka út úr loforðageymslunni nánast sama fjölskyldupakkann á fjögurra ára fresti áratugum saman og sturta honum síðan ofan í ræsið eins léttilega og að drekka vatn. Það hefur hins vegar ekki staðið á flokknum í gegnum tíðina að leggjast í fjáraustur úr opinberum sjóðum og sóa milljörðum á milljörðum ofan í ótrúlegustu martraðir í atvinnumálum. Á áttunda áratug síðustu aldar hafði Framsóknarflokkurinn forystu um byggingu hátækni-haughúsa við fjósræfla yfirvofandi eyðibýla við Ísafjarðardjúp og á níunda áratugnum eyddi svo flokkurinn milljörðum í refarækt í sjókvíum hringinn í kringum landið. Hver martröðin hefur rekið aðra. Ég spyr bara nokkurra spurninga í framhaldinu: Muna menn ekki eftir minkaræktinni á Langjökli? Muna menn ekki eftir tilraunum flokksins með ræktun þorskhausa í Þykkvabænum? Muna menn ekki eftir óskabarni Framsóknarflokksins, selskinnskápuverksmiðjunni á Djúpavík, sem hafði framleiðslugetu upp á 100 þúsund kápur á viku en aðeins ein seldist – og varla þarf að taka fram að kaupandinn var maður að nafni Halldór Ásgrímsson? Muna menn ekki eftir skóverksmiðjunni á Hornbjargi þar sem ekkert vinnuafl var að fá nema þá helst ísbirni? Þannig mætti lengi áfram telja. Nýjasta martröðin er svo álverið við Reyðarfjörð og er örugglega sú brjálæðislegasta sem Framsóknarflokkurinn hefur ginnt þjóðina út í og á eftir að hafa hrikalegar afleiðingar.
Já, Framsóknarflokkurinn verður seint sakaður um að hafa gengið í hægðum sínum í atvinnumálum landsmanna. Þvert á móti hefur hann sprautað úr pípum sínum veruleikafirrtum hugmyndum yfir saklausa þjóðina og hrint þeim í framkvæmd með ærnum kostnaði. Er nú mál að linni og tími til kominn að loka endanlega fyrir þetta dýrkeypta fráveitukerfi Framsóknar.
Sturtum Framsóknarflokknum niður
En aftur að skólpmálunum enda skammt á milli bæja þegar Framsóknarflokkurinn er annars vegar. Ég vil að opinberir aðilar hafi áfram öll fráveitumál á sinni könnu. Breyting þar á mun aðeins gleðja þau fáeinu hjörtu sem enn styðja Framsóknarflokkinn; þau munu kannski slá aðeins hraðar ef Ræsi og rör hf. og önnur væntanleg fyrirtæki í fráveituþjónustu komast í þá gullnámu sem skólpið er og fara að auglýsa tilboð eins og t.d. tvo fyrir einn, bjóða upp á spennandi lukkupotta fyrir stórtæka notendur, sólarlandaferðir og þar fram eftir götunum. Meirihluti þjóðarinnar er hins vegar á móti einkavæðingu í fráveitumálum - er sem sagt sammála mér. Meirihluti þjóðarinnar finnur ólyktina af þessari stefnu eins og reyndar öllu sem frá Framsóknarflokknum kemur nú um stundir. Flokkurinn á ekkert annað skilið en honum verði sturtað niður í ræsið í komandi kosningum. Af því væri mikil landhreinsun og gefur góðar vonir um að eftir kosningar blási ferskir og hlýir vindar velferðarstjórnar undir forsæti Steingríms J. Sigfússonar með gróandi þjóðlíf á öllum sviðum. Þá sýnist mér að Ingibjörg Sólrún sé aldeilis kjörin í nýtt ráðuneyti jafnréttismála og helst mundi ég vilja fá Davíð Oddsson í menntamálin enda reyndist hann betri en enginn í menningarmálum í sinni borgarstjóratíð. En kannski passar hann ekki alveg inn í módelið - og þó er aldrei að vita. Um frekari skiptingu ráðuneyta ætla ég ekki að fjölyrða að sinni, né heldur að benda á aðstoðarmenn eins og Samfylkingarmenn voru farnir að gera strax í desember. Þó kæmi ekki á óvart að Steingrímur Joð mundi hafa samband við mig. En svoleiðis nokkuð bíður bara síns tíma.
Með baráttukveðju,
Karl Ormur Skólpnes
Grænubraut 16, gengið inn frá vinstri,
105 Reykjavík