Fara í efni

ER JÓN AÐ KASTA REKUNUM Á FRAMSÓKN?

Jón Sigurðssson, formaður Framsóknarflokksins, blés á kerti á afmælistertu flokks síns í dag. Framsókn er orðin háöldruð eins og menn vita, níræð og komin að fótum fram. Formaður var spurður hvort hann ætti einhverja ósk flokknum til handa. Ég hélt að Jón myndi segja að hann vonaði að flokknum auðnaðist að snúa af villu síns vegar, segja skilið við stóriðjustefnuna, einkavæðingarspillinguna, Íraksundirgefnina og misréttispólitíkina. Nei, aldeilis ekki. Framsóknarfóstrinn sagðist eiga þá ósk að Framsóknarflokkurinn fengi sanngjarnan dóm og yrði dæmdur af verkum sínum. Þá er væntanlega vísað til framgöngu flokksins við Kárahnjúka, einkavæðingu þjóðareignanna, misbeitingu valds í þágu pólitískra vildarvina, þjónkun við Bush og Blair og skattastefnu í þágu hinna efnuðu. Auðvitað get ég ekki annað en tekið undir með Jóni Sigurðssyni að stjórnmálaflokka á að dæma af verkum þeirra. Í tilfelli Framsóknar fæ ég hins vegar ekki betur séð en formaðurinn sé með þessari ósk að kasta rekunum á hinn aldna skjólstæðing sinn.
Haffi