Fara í efni

ER JÓN BALDVIN TEKINN VIÐ AFTUR?

Sæll Ögmundur !
Nú er ég alveg hættur að botna í málunum. Ég fæ ekki betur séð en Jón Baldvin sé tekinn aftur við forustu í Samfylkingunni eða Alþýðuflokknum með því nýja nafni. Síðustu daga hefur borið miklu meira á honum en Ingibjörgu Sólrúnu og fjölmiðlar virðast hafa meiri áhuga á að fá viðbrögð hans við því sem er að gerast en hennar. Fyrst var það nú afmæli Alþýðuflokksins þar sem Jón Baldvin var aðalmaðurinn ásamt hinum gömlu krötunum. Svo kom brottför hersins og aftur var aðallega talað við Jón. Og í gærkvöld var sagt frá því að Jón Baldvin ætti að móta nýja stefnu fyrir Samfylkinguna þegar herinn er að fara. Auðvitað er það bara gott ef Jón Baldvin er orðinn bæði róttækur vinstrimaður og herstöðvaandstæðingur aftur. Hitt er furðulegt ef hann getur bara komið si svona og tekið völdin í Samfylkingunni af nýja formanninum og ekki lengra liðið síðan hún hafði fyrir því að velta Össuri úr stólnum. Finnst þér þetta ekki svolítið kúnstugt?
S. Pálsson

Sæll og þakka þér fyrir bréfið. Ofsagt kann nú að vera að Jón Baldvin sé búinn að taka völdin í Samfylkingunni. Hitt er þó rétt að talsvert er hann orðinn áberandi sem talsmaður flokksins. Einnig hef ég grun um að ofsagt gæti verið hjá þér að Jón Baldvin sé orðinn eins róttækur og vinstrisinnaður og hann var í æsku. Ef svo væri myndi hann horfa til Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs en ekki Samfylkingarinnar, arftaka Alþýðuflokksins sáluga, sem vettvangs fyrir skoðanir sínar. Ef Jón Baldvin er orðinn vinstri maður er óhætt að segja að mikið hafi breyst á síðustu árum því undir forystu Jóns Baldvins og Sighvats var Alþýðuflokkurinn hægri sinnaðasti krataflokkur á Norðurlöndum! Hitt er þó rétt, að mér heyrist Jón Baldvin vera með heldur vinstrisinnaðri tóna nú en fyrir sendiherradvöl sína í Washington. Það skyldi þó aldrei vera svo, að hann ætli sér nú það hlutverk í stjórnmálum að sveigja Samfylkinguna til vinstri?! Ef svo er óska ég honum alls góðs. En ég neita því ekki að nokkuð þykir mér þetta allt saman vera mótsagnakennt og ósannfærandi. Ég er nefnilega eki enn búinn að gleyma Viðeyjarstjórn þeirra Davíðs Oddssonar og Jóns Baldvins. Hinu ætla ég heldur ekki að gleyma að batnandi mönnum er best að lifa. Það á að sjálfsögðu einnig við um Jón Baldvin Hannibalsson.
Ögmundur