Fara í efni

ER SAGAN AÐ ENDURTAKA SIG?

Sæll Ögmundur.
Hefur þú séð skuldaklukku Icesave seinkunarinnar? Hún birtist á vef ungra jafnaðarmanna og byggir á útreikningum Gunnlaugs nokkurs hagfræðings sem Pétur vinur þinn hér á síðunni hefur vitnað til. Gunnlaugur hefur reiknað út að Icesave seinkunin kosti þjóðarbúið 75 milljarða á mánuði. Þannig að spörun á Icesave, ef hefði verið samþykkt væri nú komin í 900 milljarða í hreinar tekjur. Hugsaðu þér hvernig hagfræðin getur nú hjálpað okkur! Þetta kannt þú ekki Ögmundur, heldur ert bara í því að velja hvort smyrja eigi brauðið með osti eða kæfu. Þú hefðir kannski átt að fara í hagfræðikúrsinn hjá Þórólfi, þá kynnir þú að reikna og gætir sparað fyrir okkur hin. Við þurfum kannski ekkert að hugsa um velferðina, því það er nóg að taka á okkur skuldbindingar okkar og vera alvöru þjóð meðal þjóða. Álver í Helguvík væri komið á fullan skrið og stækkun í Straumsvík sömuleiðis. Framkvæmdir væru byrjaðar í neðri hluta Þjórsá og Landsvirkjun væri komin með opnar lánalínur. Þannig er nú nýja Ísland frumlegt. Sástu annars Draumalandið? Mér leið eins og Icesave væri komið í stað virkjunarinnar fyrir austan. Icesave skuldaklukkan er einmitt hugmynd sem framsóknarmenn hefðu hæglega getið komið fyrir á Reyðarfirði og sagt fólkinu hvernig tafirnar, eða framkvæmdirnar, væru að dæla inn eða spara ef því er að skipta, fyrir þjóð í vanda. Steingrímur greyið orðinn Guðmundur, orðinn verkefnastjóri fyrir Alcoa. Hvernig var slagorðið vinstri grænna? Allt annað líf.
Bestu kveðjur,
einn óháður kjósandi VG