Er þetta ekki bara spurning um mannlausan hníf?
Blessaður Ögmundur.
Ég fylgdist með því á BBC á sunnudaginn þegar ódámurinn og hrakmennið Saddam Hussein gekkst undir ítarlega athugun sérfræðinga eftir að hafa verið gómaður. Ég er ekki sleipur í dönskunni en þykist þó hafa skilið að á honum hafi hvorki fundist kjarnorkuvopn né efnavopn og var þó leitað bæði í hári og skeggi og eins í munni og vafalaust víðar þótt ekki sýndi vídeóupptaka bandamanna frekari eftirgrennslan. En mig langar að spyrja: er nauðsynlegt að leita meir en orðið er? Við vitum að vopnin eru til, á því leikur enginn vafi að sögn utanríkisráðherra, en hvað var ekki sagt í okkar ungdæmi? Jú, það var sagt að hálfur væri hníflaus maður og hvað má þá segja um mannlausan hníf? Hann gerir auðvitað ekki neitt. Og gildir ekki hið sama um munaðarlaus gereyðingarvopnin eftir að illmennið Saddam Hussein hefur komist undir siðaðra manna hendur?
Kveðja,
Varði Straumfjörð