Fara í efni

ERU FRAMSÓKN, SAMFYLKING, FRJÁLSLYNDIR OG SJÁLFSTÆÐISFLOKKUR MIÐJUFLOKKAR?

Heill og sæll Ögmundur !

Það er nokkuð síðan ég hef skrifað þér og nú langar mig til að ræða eitt atriði. Það er þetta með miðjuna og miðjuna í íslenskum stjórnmálum. Mér blöskrar alveg hvernig hægt er að þvæla fram og aftur um hlutina í stjórnmálaumræðunni hér heima án þess að staldra við og spyrja grundvallarspurninganna. Fyrsta spurningin er auðvitað þessi. Er það sem hér er kallað miðja eiginleg "miðja", sem sagt "hlutlaus" afstaða eða mitt á milli meginstrauma hægri og vinstri stefnu? Framsóknarflokkurinn segist sjálfur vera miðjuflokkur og þar með er það bara tekið gott og gilt. En er hann það? Manst þú eftir nokkrum sköpuðum hlut sem sá flokkur hefur gert undanfarin ár sem ekki er meira og minna "hægra" megin við miðju stjórnmálanna eins og þau eru venjulega skilgreint. Samfylkingin undir forustu Ingibjargar Sólrúnar segist nú ætla að slást um miðjufylgið, sem er auðvitað fyndið í sögulegu ljósi því í Samfylkingunni áttu "vinstri" menn að sameinast ekki satt? Það má kannski fara að auglýsa svona eins og í gamla daga "vinstri menn sameinist á miðjunni, nefndin" Frjálslyndir telja sig miðjuflokk, frjálslyndan miðjuflokk sjálfsagt og svo er Sjálfstæðisflokkurinn undir forustu Geirs sagður vera meira inn á miðjunni. Það er auðvitað undarlegt ástand í einu landi ef allir flokkar nema einn telja sig meiri og minni miðjuflokka, þar er hin virðingaverða undantekning flokkur ykkar Vinstri grænir. En það sem ég á nú við er að mér virðist þessi svokallaða "miðja" hafa verið flutt ansi langt til hægri. Eða er kannski nóg að milda aðeins ásjónu nýfrjálshyggjunnar, slá lítilsháttar varnagla við algerlega óheftum kapítalisma og þar með séu menn orðnir miðjumenn í stjórnmálum? Er Morgunblaðið hlutlaust, bara svona miðjublað, af því það skrifar af og til eitthvað um að auðhringarnir megi nú ekki eignast allt. Í Svíþjóð þar sem ég hef verið með annan fótinn og unnið mikið undanfarin ár væri svona þvælukennd umræða aldrei liðin. Þar er hlegið að blaðamönnum sem gleypa áróðursfrasa pólitíkusanna hráa. Þar er ekki nóg að segjast vera miðjumaður, verk þín og áherslur verða að sýna að svo sé. Ég sá skrif um nokkurn veginn þetta efni nú á dögunum eftir þennan Egil Helgason sem er stundum í sjónvarpi líka. Hann verkaði á mig sem dæmigerður svona frasagleypandi, gagnrýnislaus penni. Sjálfur virðist hann vera frekar geðvondur hægri krati í skoðunum sem hreytir ónotum í alla sem ekki eru sama sinnis og rembist við að skrifa um stjórnmálin eins og honum finnst að þau eigi að vera fremur en eins og þau raunverulega eru. Í Svíþjóð eru sósíaldemókratar stoltir af því að vera félagshyggjuflokkur, vera til vinstri. Hægri menn eða borgaralegir flokkar eru klárlega til hægri og svo eru miðjuflokkar raunverulegir miðjuflokkar. Ef eitthvað er þessi mynd ennþá sterkari í Noregi.  Hér finnst mér stanslaust reynt að snúa upp á þetta allt saman, flokkarnir komast upp með svona endalaust frasatal og fjölmiðlarnir vinna ekki heimavinnuna sína. En svo ætla ég bara að hrósa ykkur vinstri grænum. Ég held að þið séuð á réttri leið með skýra stefnu og góða vinnu. Mér finnst núna margir miklu ákveðnari í að styðja ykkur en áður og ég held að fjölmiðlar séu að vanmeta styrk ykkar. Þeir tala oft eins og fylgi komi til ykkar af því aðrir flokkar séu svo lélegir, en ekki af því að vinstri grænir séu einfaldlega svo góðir. Það hjálpar líka ykkur að nú eru róttækir straumar undirniðri og ungt fólk er pólitískt og hugsar um þessi alþjóðamál. Nú er ég farinn að velta fyrir mér að kjósa aftur á Íslandi eftir langt hlé.

S. Pálsson