Fara í efni

ERU JAFNAÐARMENN GENGNIR ÚR SAMFYLKINGUNNI?

Skyldi fólk almennt gera sér grein fyrir því að milljarðarnir fimm sem ríkisstjórnin er að setja í tryggingakerfið til aldraðra og öryrkja eru klæðskerasaumaðir fyrir þá sem betur eru settir? Hingað til hefur verið reynt að deila fjármunum frá hinu opinbera þannig að þeir gagnist fyrst og fremst þeim sem minnst hafa. En svo kom Samfylkingin inn í Stjórnarráðið. Síðan hefur sú hugsun verið úti. Staðreyndin er sú  að þessi væll um aldraða er út úr allri kú. Sumir aldraðir hafa það skítt, aðrir bærilegt. Einhvern tímann verður Björgólfur gamall  og Jón Ásgeir. Líka Gummi og Sigga.  Ætlum við að leggja þau öll að jöfnu? Það gerir Samfylkingin. Mér sýnist þau vera klökk þegar þau koma fram í fjölmiðlum að tala um milljarðana fimm. Þeim finnst þau vera svo góð. Ekki finnst mér það. Mér finnst þau úr öllum tengslum við það fólk sem minnst ber úr býtum í samfélaginu. Fimm milljarðar eru ekki miklir peningar þegar um er að ræða alla öryrkja og alla aldraða á Íslandi. Síðan ætla þau að svelta velferðarkerfið. Og til hermála setur Samfylkingin á annan milljarð! Hvar er jafnaðarfólkið í þessum flokki?
Haffi