Félagi Ögmundur.
Nú er þröngt í búi hjá okkur smáfuglunum enda ný yfirstaðin kaup á nánast öllu gróðavænlegu hér á landi. Eimskipafélagið og Flugleiðir eru flogin úr höndum mér og stærstu stjórnmálaflokkar landsins hafa einnig skipt um eigendur. Þá er enn einhver óskiljanleg stífla á sölu Landsímans og því leita ég til þín sem formanns þingflokks VG. Þannig er mál með vexti að mér græddist talsvert fé í Sovétríkjunum sálugu eftir hrun kommúnismans. Ég lagðist ekki í bjórinn eins og Björgólfur vinur minn heldur veðjaði ég á skófatnað og lenti að sjálfsögðu í miklum uppgripum enda höfðu skór ekki sést í verslunum þar austur frá síðan á Stalíns-tímanum. Þar á ofan var vinnuaflið ódýrt, rekstrarumhverfi allt með endemum gott, og engin leiðinda verkalýðshreyfing á höttunum á eftir manni út af einhverjum smámunum, eins og til að mynda höfuðkúpubrotnum starfsmönnum sem þóttust ekki geta unnið eins og menn. Nú, ef maður lenti í einhverju árans veseni þá hringdi maður bara í mafíuna og hún reddaði málunum samstundis. En nú er ég sem sagt búinn að skóa upp liðið fyrir austan, búinn að selja verksmiðjurnar mínar og kominn heim með milljarðana mína. Og erindið er einfaldlega þetta: Er Vinstrihreyfingin - grænt framboð til sölu? Ég sé ýmsa möguleika til hagræðingar þar á bæ sem og breytinga sem mundu verða íslensku samfélagi til mikilla heilla. Ég er reiðubúinn að kaupa flokkinn fyrir stórfé til að greiða fyrir margvíslegum framfaramálum eins og til að mynda einkavæðingu heilbrigðisgeirans og menntakerfisins. Fyrsta tilboð mitt er upp á fimm milljarða og má af því marka hve mikils ég met ykkur, hina fimm fræknu í þingflokknum.
Með félagskveðju,
Varði Straumfjörð