EXBÉ VILL FLYTJA ESJUNA
Nýjasta útspil Björns Inga Hrafnssonar, stórbónda á Lönguskerjum, er loforð um að flytja Esjuna nær miðbænum nái hann kjöri í borgarstjórn n.k. laugardag. Með flutningnum vill hann mynda öflugan skjólvegg gegn norðanáttinni í Kvosinni og nágrenni, þeirri bítandi nepju sem alla jafna hrellir gesti og gangandi þar.
Degi B. Eggertssyni, borgarforingja Samfylkingarinnar, finnst hugmyndin spennandi. Hann telur þó rétt að setja málið fyrst í þverfaglegan rýnihóp og kanna hvort tilfærsla Esjunnar gefi ekki færi á frekari tilfærslum á það sléttlendi sem fjallið muni skilja eftir sig.
Ólafur helgi, oddviti Frjálslyndra og syndlausra, er algerlega á móti flutningnum enda sé fjallið náttúruminjar rétt eins og flugvallarperlan í Vatnsmýrinni. Þá undirstrikar hann sérstöðu Frjálslyndra og syndlausra í þessu sem og öðru og segir að þeim einum sé treystandi fyrir Esjunni. Þeir hafi enda engar syndir á bakinu, hvorki í þessu máli né öðrum. Og Ólafur helgi beinir steinkasti Frjálslyndra og syndlausra einkum að Vinstri grænum og segir að oftar en ekki hafi hatur Árna Þórs Sigurðssonar í garð Esjunnar brotist upp á yfirborðið í skipulagsnefnd. Græningjunum sé ekki treystandi í stóra Esju-málinu fremur en í öðru.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson telur flutninginn vel koma til greina enda geti með honum skapast verulegt svigrúm til að lækka fasteignagjöld á aldraðra.
Stjórnmálaskýrendur telja nú aðeins tímaspursmál hvenær Björn Ingi stimpli sig inn í borgarstjórnina, og tryggi þar með Sjálfstæðisflokknum meirihlutann í Ráðhúsinu, enda séu síðustu útspil EXBÉ svo freistandi að borgarbúar geti ekki hafnað þeim.
Þjóðólfur