FALL FLOKKS OG FYRIRTÆKJA
Fyrirtækin sem styrktu Sjálfstæðisflokkinn voru öll frumkvöðlar í svokallaðri útrás íslenskra fyrirtækja. Fyrirtækin eru öll hluti af valdakerfi atvinnulífsins og margir stjórnenda þeirra gegndu, eða gegna lykilhlutverki í samtökunum. Þessi samtök og Sjálfstæðisflokkurinn eru jafn skyld og skeggið hökunni. Hugmyndafræðin sú sama, hagsmunirnir þeir sömu, og einstaklingarnir í mjög mörgum tilvikum þeir sömu. Hneykslismálin sem nú skekja Sjálfstæðisflokkinn eru dæmi um og staðfesting á hvernig hugmyndafræði flokks hefur verið skraddarsaumuð að sérhagsmunum stærstu fyrirtækja landsins. Nú er komið í ljós að þau greiddu fyrir greiðasemi þeirra sem ákvarðanir taka fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins á Alþingi, meðal annars með lagasetningu. Eitt er að ákveða að kaupa sér áhrif, annað og verra að taka við fé fyrirtækjanna. Væru gerendurnir í hneykslismálinu fullvaxnir í siðferðilegum skilningi ættu þeir þegar í stað að láta af þeim störfum sem þeir sinna nú. Þetta gildir jafnt um stjórnmálamennina, forsvarsmenn fyrirtækjanna og svo er ekki úr vegi að Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð og Samtök verslunar og þjónustu íhugi framtíð sína og mannvalið, sem þau hafa skipað til forystu til að innleiða á Íslandi þá hráu frjálshyggju sem hér hefur verið þvinguð fram á öllum sviðum þjóðlífsins. Þessi kampur er nú rjúkandi rúst og það er siðferðileg skylda allra annarra stjórnmálaflokka að heita því, að koma ekki nærri Sjálfstæðisflokknum mjög mörg ár fram í tímann. Það er svo sem marklaust að fara fram á opinbera rannsókn á fjárreiðum Sjálfstæðisflokksins aftur í tímann, en kjósendur eiga hins vegar eftir að ákveða hvort Sjálfstæðisflokkurinn verður 23% flokkur eftir kosningarnar, eða 16% flokkur. Mál standa einfaldlega þannig að því minna fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn fær í kosningum þeim mun heiðarlegri verða forystumenn hans að verða í uppgjörinu. Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur verið hér allt í öllu um langa hríð og hagnýtt sér samfélagið með ýmsum hætti skuldar þjóðinni alvöru uppgjör þar sem ekkert er dregið undan. Og þið Ögmundur verðið að ganga hart fram í þessu máli. Af hverju? Af því sjálfstæðsishneykslið snýst líka um hið lýðræðislega pólitíska kerfi. Var einhverjum þingmönnum sjálfstæðismanna mútað? Ég er alls ekki tilbúin að skrifa undir það. Það virðist hins vegar komið upp hér á Íslandi einkennilegt afbrigði af hagsmunagæslu stjórnmálamanna, sem hafa verið í nánu persónulegu og fjárhagslegu sambandi við stjórnendur fyrirtækja. Þú hefur til dæmis verið að vinda ofan af meintum skipulagsbreytingum fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem vildi flytja allan skurðstofurekstur til Keflavíkur þar sem átti að hola niður fyrrtækinu SALT fjárfestingafélagi og Róberti Westmann. Hverjir standa að baki því prójekti? Voru allar skipulagsbreytingarnar sjónhverfing til að einkavæða spítalann í Keflavík, sem sé að tryggja hagsmuni auðmanns og hrinda í framkvæmd frjálshyggju stefnu Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisþjónustunni? Og hverjir stóðu með Westmann? Voru það bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ? Eða kannske Bláa lónið? Nú verðum við að spyrja um þetta. Við verðum líka að spyrja um hvaða tillögur Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, var að reyna að hrinda í framkvæmd inni á Landspítalanum. Þér stendur það nærri nú að upplýsa það, bæði tilltögurnar og kostnaðinn við nefndarstarfið. Eitt sinni gengu auðmenn í prósessíu inn kirkjugólf í Reykjavík, öðru sinni mærði forsetinn auðmenn við áramót og nú höfum við fengið að sjá eitt lag í hagsmunavefnum sem hér hefur verið spunninn áratugum saman. Þetta fólk á náttúrulega að skammast sín, fólk sem nú segist vilja afgreiða aðstoð fyrir fólk og fyrirtæki á Alþingi, en er áfram að reyna að tryggja sérhagsmuni fyrirtækjanna og vill koma í vega fyrir að auðlindir verði tryggðar almenningi í stjórnarskrá. Svei. Ég er hrædd um að hér í Danmörku væru nokkrir hausar foknir í pólitíkinni, en kannski munum við fram að kosningnum sjá hver styrkur fjölmiðlanna okkar er. Margir þeirra hafa staðið sig vel og vonandi að þeir falli ekki á prófinu heldur haldi sig við að upplýsa á faglegan og sanngjarnan hátt.
Kveðja,
Ólína