Fara í efni

FALLINN MEÐ FJÓRA KOMMA NÚLL

Sæll Ögmundur,
Er orðin frekar uggandi yfir endurteknum dæmum um það hvernig hagsmunum eigenda fjölmiðlasamsteypu Baugs og fréttum er blandað saman. Dæmunum fer fjölgandi. Þegar Páll fréttastjóri Stöðvar 2 samdi við Baug um að flytja Bobby Fischer til Íslands í einkaþotunni sem eigendur 365 ljósvakamiðla hafa aðgang að brást hann áhorfendum frétta. Þegar hann svo stuðlaði að því að fréttamaður Stöðvar 2 leiddi Fischer inn í bíl á vegum fyrirtækisins þá brást hann sem fréttastjóri. Þegar hann svo svippaði sér upp í framsæti jeppans á teinóttum jakkafötunum þá varð öllum sem á horfðu ljóst að þarna fór leikstjóri sýningarinnar. Fréttastjórinn sem í krafti fjár eiganda fjölmiðlaveldisins gerði allt sem í hans valdi stóð til að halda öðrum fjölmiðlum frá Bobby Fischer brást. Hann toppaði svo sjálfan sig í sýningunni þegar hann lét baugsjeppana keyra hring um Hótel Loftleiðir (sem hugsanlega er í eigu Baugs) til að gefa fréttamanni Stöðvar 2 kost á að endurtaka einkaviðtalið sem var ekki nógu gott í hið fyrra skipti. Var hann þarna kominn í upprunalegt hlutverk Pierrots i commedia dell’arte. Réttlætingin á framferði fréttastjórans hlýtur að felast í að honum finnist í lagi að búa til og hanna atburðarás og flytja svo fréttir af öllu saman. Honum finnst líka í lagi að því er virðist að blanda saman fyrir allra augum fjárhagslegum yfirburðum eigenda fjölmiðilsins og það sem verra er að neyta aflsmunar í krafti þess fjár og bola öðrum fjölmiðlum frá. Þegar maður eru tilbúninn til að gera svona lagað þá spyr maður hvað hann er tilbúinn að leggja til á ritstjórnarfundi eftir huggulegt samtal í síma, fyrir eigendur eða til dæmis stjórnmálamenn í skiptum fyrir einkaviðtöl? Baugsfréttadæmin sem fram hafa komið síðustu mánuði vekja með mér sama óhug og flokkspólitísku afskiptin af fréttastofum ríkisútvarpsins. Það er sama hvert litið er alls staðar virðist Pierrot halda um valdstauminn. Er ekki tími til kominn að endurskoða afstöðu VG til fjölmiðlafrumvarpsins í ljósi þess hvernig þeir láta Pál hantera fréttirnar? Eitt í lokin. Einn er sá maður sem á stærstan þátt í að losa Fischer úr prísundinni og sá sem tók jafn mikla pólitíska áhættu í málinu og baugsliðið tók litla peningalega áhættu þótt fréttir þeirra séu fyrir bí en þetta er Davíð Oddsson, utanríkisráðherra. Hann tók ákvörðun, vann í málinu og landaði því. Hann á þakkir skildar fyrir staðfestuna finnst mér og ekki hefur hann reynt að nýta sér sinn góða gjörning. Fréttastjórinn féll hins vegar með fjóra komma núll. Þar skilur á milli feigs og ófeigs.
Kveðja
Ólína

Þakka bréfið Ólína. Allt er þetta umhugsunarvert. Varðandi afstöðu okkar í VG til fjölmiðlafrumvarpsins þá er afstaðan sú sama og fyrr. Við viljum skoða afdrif Ríkisútvarpsins í þessu stóra samhengi og ekki gleyma valdi auglýsandans. Vald eigandans skiptir að sjálfsögðu lykilmáli en sem auglýsandi geta áhrif hans skipt sköpum. Á Páli Magnússyni, fréttastjóra Stöðvar tvö, var að skilja einhvers staðar í fréttum að allt  væri leyfilegt og réttlætanlegt þegar samkeppnin væri annars vegar. Er það virkilega svo...? Varðandi þá áhættu sem þér finnst að Davíð Oddsson hafi tekið í þessu máli þá er ég ekki alveg viss um að ég skilji þig mín ágæta Ólína, nema það að áhættan felist í því að Bush klappi honum ekki á kollinn á næsta fundi. Slíkt kalla ég nú ekki áhættu í lífinu. En sennilega er það rétt hjá þér að þeim félögum Halldóri og Davíð finnist þetta toppurinn á tilverunni og þess vegna rétt að tala um áhættu í þessu sambandi. Þar hafa þeir þó hvorki minn skilning né mína samúð.
Kveðja,
Ögmundur