Fara í efni

Fautinn Halldór

Sæll Ögmundur.
Halldóri Blöndal var greinilega mjög í mun að klína kóngastimpli á forseta Íslands. Af ræðu hans við setningu Alþingis hagaði hann orðum sínu með þeim hætti að augljóst varð að drullukökubaksturinn var honum hugstæðari en að fjalla um samband þings, forseta og þjóðar. Ýmsilegt í starfsháttum forseta Íslands er gagnrýnivert, ekki síst dekur hans við ákveðna þjóðfélagshópa fremur en umfjöllun hans um þjóðina eða almannaheill, en það er önnur saga.

Ég kýs, Ögmundur, að kalla stráksskap forseta Alþignis drullkökubakstur. Þetta geri ég vegna þess að önnur mál og brýnni hefðu átt að upptaka hug forseta stæði hann undir embættisskyldum sínum sem forseti allra þingmanna. Alþingi hefur nefnilega ákveðið að haga störfum sínum þannig að auk forsætisnefndar fer meginvinna þingmanna fram í 12 fastanefndum Alþingis. Um þetta getur Halldór lesið í þingsköpum Alþingis. Samkvæmt þeim lögum er afgreiðsla mála á Alþingi, bæði frumvarpa og þingsályktunartillagna, skilyrt af því sem fram fer í þessum fastanefndunum. Af sjálfu leiðir að þingmenn þurfa að eiga aðgang að nefndum Alþingis til að geta talist sinna skyldunum sem þeim ber eftir að þeir hafa verið kosnir til að fara með valdið sem kjósendur fengu þeim í hendur.

Enginn gerir í alvöru þá kröfu til þeirra þingmanna sem hafa skipað sér í flokk framsóknarmanna á Alþingi að þeim séu þessi grundvallaratriði heilög eða ljós og er þar sitthvað Halldór og Halldór. Í flokki Halldórs, sem margsinnis hefur gengið klofinn fram og ekki alltaf marsérað í takt, ættu menn aftur á móti að hafa þjálfun í að hugsa um grundvallaratriði, þeir tala alla vega nógu mikið um þau þegar stöðuveitingar eru annars vegar.

Einn þingmaður, Kristinn H. Gunnarsson, hefur verið sviptur nær öllum möguleikum til að hafa áhrif á framgang þingmála þar sem þingflokkur framsóknarmanna kaus að reka hann úr fastanefndum Alþingis. Hann getur ekki haft áhrif á mál annarra og ef hann flytur frumvarp sjálfur þá getur hann hvorki fylgt málinu eftir í þingnefnd né komið að afgreiðslu máls síns á nokkurn hátt. Kristinn H. Gunnarsson getur til dæmis ekki verið viðstaddur þegar umsagnaraðilar mæta fyrir þingnefnd til að gera grein fyrir afstöðu sinni til máls sem þessi sami Kristinn H. Gunnarsson flytur.

Forseti Alþingis lætur það sem sé óátalið að þingmaður skuli sviptur grundvallarréttindum sínum og valdinu sem kjósendur fólu honum í lýðræðislegum kosningum til Alþingis. Það hefði staðið Halldóri nær, þingræðissinnanum sem hann þykist vera, að fjalla um gloppuna í þingskaparlögunum sem fram er komin með því að Kristinn H. Gunnarsson er sviptur stórum hluta löggjafarvaldsins sem kjósendur hans færðu honum. Fautaskapurinn ætti að verða til þess að þingskaparlögum verður breytt í snarheitum. Hvernig stóð á því Ögmundur að ykkur stjórnarandstæðingum datt ekki í hug sem alþingismönnum að tryggja þingmanninum réttinn sem hann, og kjósendur hans, hafa samkvæmt stjórnarskrá og kosningalögum? Þetta hefðuð þið átt að gera að meginmáli útgöngunnar í gær, en láta drullukökubakstur Halldórs sem vind um eyrun þjóta.
Ólína

Þakka þér bréfið Ólína. Vangaveltur þínar eru mjög umhugsunarverðar.
Kveðja,
Ögmundur