Fara í efni

FÉLAGSVÍSINDA-SÉRFRÆÐINGAR SLÁ Í GEGN

Sæll Ögmundur.
Til hamningju með ráðherradóminn og gangi þér vel í starfi þínu. Nýtt Ísland þarf að eiga heilbrigðisráðherra sem stendur vörð um hagmuni sjúkra og gerir almenningi grein fyrir hversu ríkir hagsmunir felast í því að hjálpast að þegar sjúkdómarnir herja. Annars eru það prófessorar í félagsvísindadeild sem vekja mig til umhugsunar og jú, ég undrast yfirlýsingar þeirra. Vitaskuld er einstaklingum heimilt að hafa skoðanir. Þeir mega líka afhjúpa vankunnáttu sína og bera hana á torg. Helgi Gunnar Kristinsson má til dæmis vera þeirrar skoðunar að seðlabankastjórar séu opinberir starfsmenn seldir undir réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Hann hefur meira að segja fullan rétt til að fabúlera um þessa "staðreynd" og halda því fram að Davíð Oddsson sitji í þínu skjóli. Í mínum huga er það álíka viturlegt og að halda því fram að barátta þín gegn eftirlaunalögunum sé til að tryggja að Ísland gangi ekki í ESB. Það er líka í góðu lagi að prófessor í stjórnmálafræði haldi því nú fram að dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra hafi ekki lýðræðislegt umboð frá þjóðinni, að skipan þeirra sé ólýðræðisleg, og að þeir hafi ekki sama styrk og aðrir ráðherrar í rikisstjórn af því þau eru ekki alþingismenn. Ætli þeir í félagsvísindadeildinni kenni ekkert um þrígreiningu valdsins? Ráðherra í ríkisstjórn sætir ákvæðum um ábyrgð og skyldur ráðherra að lögum. Ráðherra fer með og ber ábyrgð á öllu því sem ráðuneyti hennar framkvæmdir. Er í þessu enginn munur á ráðherrum samkvæmt stjórnarskipaninni. Valdsækið flokkakerfi hefur jafnan kallað ný framboð "sérframboð". Félagsvísindasérfræðingarnir hafa oftar en ekki tekið upp þessa orðanotkun. Það kemur því ekki á óvart þegar prófessor kallar ráðherra í ríkisstjórn, sem ekki eru alþingismenn, "utanþingsráðherra". Það er orðanotkun hins þrönga valdakerfis sem hér var við lýði fyrir september 2008, en á nú undir högg að sækja. Vona að þú afnemir innritunargjald á spítalana.
Kveðja,
Ólína

Heil og sæl Ólína.
Þakka bréfið. Innritunargjöldin voru aflögð í dag.
Kv. Ögmundur