Fara í efni

FJÖLSKYLDUPÓLITÍK AÐ HÆTTI FRAMSÓKNAR: BJÓR Í VERSLANIR

Sælir Ögmundur.

Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi, er þekktastur fyrir að hafa verið stoð, stytta og helsti ráðgjafi Halldórs Ásgrímssonar allt þar til hann þreyttist svo að hann kaus að yfirgefa land. Borgarfulltrúinn er líka þekktur fyrir áhuga sinn á vexti og viðgangi fjölskyldunnar. Hann er til dæmis formaður nefndar sem skipuð var samkvæmt ráðleggingum hans sjálfs og ber heitið Nefnd um stöðu íslensku fjölskyldunnar. Undir því flaggi heldur framsóknarmaðurinn ræður um það sem fjölskyldum er fyrir bestu og þess utan hefur hann í orði  haldið hagmunum fjölskyldunnar mjög á lofti í borgarstjórn. Því er þetta rifjað upp að fjölskyldusinninn og framsóknarmaðurinn Björn Ingi Hrafnsson virðist mikill áhugamaður um aukið aðgengi að áfengi og léttvínum ef marka má pistil á heimasíðu hans. Spyrja má hvort framsóknarmaðurinn í gervi frjálshyggjumannsins ætlar að leggja til að léttvín verði selt í sjöppum og á benzínstöðvum eða hvort framsóknarmaðurinn bregður sér í forvarnafrakkann á fjölskyldunefndarfundunum sem hann stjórnar og leggur til í því samhengi að unglingum verði forðað frá vímuefnum. Nefndarmennirnir sem hann stjórnar og fjalla um framtíð íslensku fjölskyldunnar gætu haft gaman af því að heyra þennan fyrrverandi ráðgjafa forsætisráðherra fjalla um sölu áfengis og unglingadrykkju. Í nefninni um framtíð íslensku fjölskyldunnar eru Árni Sigfússon, Björk Vilhelmsdóttir, Björn B. Jónsson, Elín Thorarensen, Fanný Gunnarsdóttir, Guðný Eydal, Ingibjörg Pálmadóttir, séra Ólafur Jóhannsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Stefán Snær Konráðsson, og séra Þorvaldur Karl Helgason.

 Bestu kveðjur,

 Þór