Fara í efni

FLEIRI SEKIR

Já, Geir er ekki einn sekur um stórkostlega vanrækslu en enginn hafði skýrari ábyrgð og ríkari ástæðu gagnvart þjóðinni um að bregðast við í aðdraganda hrunsins en enmitt hann. Þetta skiptir máli Ögmundur. Mér er það minnistætt þegar ég, árð 2002, stóð inni á skrifstofu VG ásamt þér, Steingrími o. fl. og sárbændi ykkur að krefjast opinberrar rannsóknar á aðdraganda einkavæðingar bankanna og hinum nýju eigendum þeirra. Þá hafði ég unnið að rannsókn á Samson um nokkurt skeið og viðvörunarbjöllur hringt. Ég minnist þess ekki að þú eða aðrir hafi sett fram þá kröfu fyrr en allt var komið í óefni þótt þú hafir varað við ofvöxnu bankakerfi 2007.
Já, það eru fleiri sekir en Geir Haarde en ef einhver á að virða lögin sjálf og fara eftir þeim þá hlýtur það að vera innanríkisraðherrann. Og lögin gera ráð fyrir því ferli sem Alþingi samþykkti að setja í gang, saksóknari hefur birt ákærur og Landsdómur kveðið upp úr um að fjórar þeirra standi óhaggaðar. Þú veist það jafnvel og ég að í réttarhöldunum mun þáttur fjölmargra annarra í hruninu en Geirs koma fram. Margir þeir stjórnmálamenn sem nú hræðast það mjög að fá allt fram í dagsljósið og styðja tillögu Bjarna Ben eru bara að hugsa um eigin skinn. Það er hörmuleg ógæfa vinstrimanna á Íslandi að geta ekki staðið saman um mikilvæg mál og geta ekki séð stærra samhengi hlutanna. Það er enn sorglegra að vegna ábyrgðarleysis innan VG er fyrsta hreina vinstristjórn sögunnar komin að fótum fram, stjórn sem sett hefur á oddinn velferðarmál, umbætur á stjórnarfari og nýja stjórnarskrá, réttlátari fiskveiðistjórnun það og að þjóðin fái að ráða framtíðarsambandi sinu við önnur Evrópuríki og sem náð hefur meiri árangri í efnahagsmálum en nokkur þorði að vona fyrir þremur árum. Öllu þessu virðist fólk tilbúið að fórna út frá persónulegum stælum, valdabrölti og hreinni sýndarmennsku. Mikil er ábyrgð ykkar Ögmundur.
Sigursteinn Masson