Fara í efni

Flokkur í leit að fortíð

Sæll Ögmundur.
Nú er áratugur frá því alþýðuflokksmenn samþykktu með sjálfstæðismönnum og skoðanabræðrum þínum sumum hverjum, að upp skyldi tekið tveggja þrepa virðisaukaskattskerfi. “Matarskatturinn” sem svo var nefndur skyldi lækkaður. Ég nefni þetta nú af því samfylkingarmenn eru komnir af stað með kröfuna um 7% virðisaukaskatt á tilteknum neysluvörum. Ung ljón Össurar og Ingibjargar fara mikinn og lofa almúganum gulli og grænum skógi þegar matarskattsprósentan liggur loks í 7%. Fyrir áratug samþykkti sendiherra Íslands í Súómí tveggja þrepa virðisaukaskatt ekki bara með semingi, heldur tilneyddur að eigin sögn, og hélt langar og vel rökstuddar ræður um hversu vitlaust það væri af sér og öðrum að samþykkja tveggja þrepa virðisaukaskattinn. Látum utanríkisráðherrann á þeirri tíð tala: “Ég tel þetta miður, ég tel þetta vera tapaða orustu, ég tel að ríkisstjórninni hafi verið þarna stillt upp frammi fyrir vondum kostum af hálfu forustumanna verkalýðshreyfingarinnar. Ég ætla ekki að vera með neinar ásakanir í þeirra garð, þeir hafa birt sín rök og menn hafa getað kynnt sér þau. Ég met þau rök haldlítil vegna þess að ég tel það sannað mál að ef leið B hefði verið farin, þ.e. sú leið sem í því fólst að lækka fremur tekjuskatt og hækka skattleysismörk og skila launagreiðslum í launaumslag launþega, beingreiðslum, --- ég tel að sú leið hafi ótvírætt skilað betri árangri, skilið meira eftir í vasa launþega. Fyrir utan það grundvallarsjónarmið að með þessari leið hefði ekki verið boðið upp á það að leiða menn í freistni, til enn frekari undandráttar í virðisaukaskatti til ríkissjóðs.” Þetta var Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, fyrir áratug um tveggja þrepa virðisaukaskatt. Utanríkisráðherrann studdi mál sitt þungum rökum af sama ákafa þá og samfylkingarþingmenn styðja andhverfuna nú. Þáverandi utanríkisráðherra reiknaði meira segja út kostnaðinn við breytinguna og færði rök fyrir því að fátækt fólk tapaði á skollaleiknum andstætt því sem nú er haldið fram af liðsmönnum Össurar, eða Ingibjargar. Jón Baldvin talar: “Engu að síður er það staðreynd að niðurstöður rannsókna sem framkvæmdar hafa verið í fjármálaráðuneytum hér á landi og annars staðar sl. rúman áratug ber allar að sama brunni. Færasti sérfræðingur fjármálaráðuneytisins íslenska metur það svo að það sem eftir situr hjá framleiðendum, aðallega erlendum, og milliliðum við þessa tilteknu breytingu geti numið allt að, á mjög íhaldssamri áætlun, 625 millj. kr. Nauðsynlegur kostnaður við aukið eftirlit kerfisins nemi um 200 millj. kr. og áætluð undanskot, sem hann áætlar í ljósi reynslu innan lands og erlendis en á mjög ,,konservatívum`` forsendum, 500 millj. kr., þ.e. 1.325 millj. kr. skili sér ekki. Þetta til viðbótar því að hin tekjulægri helft framteljenda ber minna úr býtum en tekjuhærri helftin mun meira.” Hvernig er þú stemmdur í málinu Ögmundur Jónasson?
Ólína

 

Heil og sæl Ólína.

Ég man þessa tíma vel og sannast sagna var ég á sama máli og Jón Baldvin Hannibalsson. Ég taldi aðrar leiðir heppilegri til að færa tekjulágu fólki kjarabætur en lækkun virðisaukaskatts. Þar talaði ég máli BSRB þar sem þetta sjónarmið var ríkjandi. Ég er þeirrar skoðunar nú að skattkerfið sé komið í öngstrræti og þurfi á ærlegri hundahreinsun að halda. Á henni er von í tillögum af hálfu BSRB fljótlega.

Með bestu kveðju,

Ögmundur