Fara í efni

FLOTTIR Í BLEIKU

Það gladdi mitt femínista hjarta þegar ég sá forsíðumyndina af ykkur Steingrími Joð í vikublaðinu Austra í gær. Þarna finnst mér þið sýna samstöðu í verki með þingfélaga ykkar, Kolbrúnu Halldórsdóttur, umvarðandi þá lit-kyngreiningu sem enn tíðkast í okkar samfélagi allt frá fæðingu. Mér er það enn þá í fersku minni hvað mig langaði að vera í bleiku þegar ég var á fæðingardeildinni forðum. Og svei mér ef sú bæling sem ég mátti þola þar, þessa fyrstu mótunardaga ævinnar, er ekki orsökin fyrir því hvað ég hefi í seinni tíð, á gamals aldri, hneigst til þess að klæðast bleiku og fyrir það mátt þola alls kyns glósur frá kynbræðrum mínum. Mestir hafa þó fordómarnir verið í minn garð þegar konan mín hefur lánað mér einhverjar flíkur. En erindið var nú ekki þetta – að tala um fordómana í samfélaginu heldur hitt að mig langar að biðja þig Ögmundur minn að birta myndina úr Austra af ykkur Steingrími hér á síðunni því ekki fer það blað víða núorðið.
Með fyrirfram þökk
og kærum kveðjum til ykkar félaganna,
Þjóðólfur