Fara í efni

FLUGVALLARSVÆÐIÐ OG UMFERÐIN

Kæri Ögmundur. Hafið þið Vinstri Græn ekki áhyggjur af aukinni umferð bíla og strætóa t.d. þegar að nýtt hverfi rís þar sem Reykjavíkurflugvöllur er núna?
Bestu kveðjur ,
Jón Þórarinsson

Heill og sæll.
Ég svara þessu játandi. Það skiptir máli hvernig þessu landi er ráðstafað. Framtíð svæðisins þarf að ígrunda mjög rækilega og heildstætt, m.a. með tilliti til umferðar. Nægur tími er til stefnu, flugvöllurinn ekki á förum á allra næstu árum. Afstaðan til fulgvarranins er þverpólitísk í eðli sínu þótt sumir stjórnmálaflokkar hafi tekið mjög afdráttarlausa afstöðu. Það höfum við í VG ekki gert. Við höfum teflt fram hugmyndinni um Hólmsheiði - en það er hugmynd, ekki ófrávíkjanleg afstaða. Persónulega vil ég gefa þessu máli mjög langan tíma og ekki gefa okkur neitt fyrirfram um útkomuna. Ég þykist vita að verktakafyrirtæki þrýsti á en þau eiga ekki að ráða för. Það er óneitanlega mikið hagræði af því fyrir marga að hafa flugvöllinn þar sem hann er og því sjónarmiði þarf að halda vel til haga. Mín skoðun er sú að flugvöllurinn flytji sig að hluta til "sjálfur", því fólk af landsbyggðinni á leið utan mun vilja geta flogið beint til Keflavíkur.
Með kveðju,
Ögmundur