Fara í efni

FORSETAR OG ÞJÓÐ

Það var baulað á forseta ASÍ á Austurvelli. Þeir sem bauluðu voru ekki einungis anarkistar. Tvennt virtist framkalla baulið. Fullyrðingin um að ASÍ hefði verið í fararbroddi þeirra sem vöruðu við útrás óreiðumannanna sem jafnframt voru beint og óbeint forystumenn í samtökum atvinnurekenda og svo ótímabær barátta forsetans fyrir inngöngu í ESB. ASÍ virðist hafa keyrt framúr félagsmönnum sínum í seinna tilvikinu. Ræða forsetans og auglýsingar ASÍ í umboði félagsmanna sinna eru dæmi um þetta. Tökum auglýsinguna fyrst. Þar stendur: „Göngum til aðildarviðræðna við ESB og leggjum varanlegan grunn að stöðugleika og uppbyggingu hér á landi."
Göngum til aðildarviðræðna segir hér. Gott og vel, fyrir aðildarviðræðum eru gild rök. Viðræður eru hins vegar ekki samkomulag ESB og Íslands, endanleg niðurstaða viðræðna. Af sjálfu leiðir að aðildarviðræðurnar sjálfar hafa engin áhrif á stöðugleika og uppbyggingu á Íslandi. Þessi hugsun er röng. Aðildarviðræðurnar sjálfar, án samþykkis þjóðarinnar, hafa engin áhrif á nýja Íslandi. Það er fyrst ef Íslendingar sem þjóð ákveða að verða hluti að ESB sem áhrifa þess fer að gæta.
ASÍ, eða réttara sagt forseti ASÍ, ætti að velta því fyrir sér hvað gerðist ef þjóðin segir nei, ef þjóðin segðist áfram vilja vera 300 þúsund manna einangruð þjóð og eiga samskipti með íslenskum krónum. Hann mætti til dæmis velta því fyrir sér hvort Íslendingar eru þjóð, og ekki bara hann, heldur við öll. Eða ættum við kannski öll að velta því fyrir okkur hvað gerir okkur að þjóð?
Kv.
Ólína