Fara í efni

FORSETINN GERÐI RÉTT

Sæll Kæri Ögmundur......
Þau eru sum skrítin lesendabréfin á vefsíðunni þinni um þessar mundir!
Ég er fullkomlega sammála háttvirtum Forseta Íslands að skjóta Icvesave samningnum eins og hann er til þjóðarinnar.  Um er að ræða alvöru lýðræði og ég vil benda á um leið hversu góð núverandi stjórnarskrá er. Auðvitað má gera eitthvað skýrara í henni fyrir þá sem vilja túlka liði hennar til að samsinnast pólitískum geðþóttahvötum þeirra, en þeir sem stóðu að breytingunum á stjórnarskránni við stofnun lýðveldisins, voru engir kjánar!  Allir alþingismenn skulu minnast að þeir sverja núverandi stjórnarskrá eið og drengskaparheit, og ber því að virða hana og breyta eftir henni, að öðrum kosti eru þeir að fremja landráð!
Þó sumt fólk reyni að tortryggja og lítilsvirða 26. grein stjórnarskrárinnar, verður að benda á að einmitt hún tryggir þjóðinni hið ágæta lýðræði Íslands, eins og ætlast er til, langt framar því sem gerist með öðrum lýðræðisþjóðum.

Forsetinn er talinn af sumum vera framlenging konungsvaldsins gamla, sem er mesti misskilningur, því vald forsetans felst í að tryggja lýðræðisvald þjóðarinnar, í hennar þágu! Það tryggir hið sanna lýðræði, það er, að lýðurinn fari endanlega með valdið!  Þetta er grundvöllurinn að lýðveldi og lýðræði voru! Eina afstaða forsetans í málum sem skipta þjóðina miklu, er að færa henni ábyrgðina og ákvörðunina! 
Foringja- og flokksræðispólitíkin sem hefur þróast hvarvetna í þjóðfélaginu og hefur smitast alvarlega inná háttvirt Alþingi, jafnvel svo að einstaklingar sem hafa smeygt sér í gegnum klíkur, með vélbrögðum og þjónkun við foringja stjórnmálaflokkanna til að fá að setjast í stóla háttvirts alþingis, eru í fjölda tilfellum alls ekki í stakk búnir til að taka afstöðu til alvarlegra ákvarðana, sem hefur svo sannarlega verið reynslan, ekki síst undanfarin 20 ár og nú síðast liðið ár. Framferði pólitíkusana og fulltrúa þeirra í ríkisábyrgðarhluta Icesave málsins hefur verið með slíkum endemum að maður hefði haldið að Íslendingar gætu hreinlega ekki gert þjóð sinni önnur eins afglöp, undirferli og jafnvel lygar. Sumir telja jafnvel að framferðið sé hreinlega landráði næst!

Forsetin gerði akkúrat það sem honum bar að gera samkvæmt stjórnarskránni og hagsmunum þjóðarinnar gagnvart Icesave, en það er að láta þjóðina taka endanlega ákvörðun í málinu eins og það stendur í dag. Þegar fjárkúgararnir hafa afneitað lífsnauðsynlegum fyrirvörunum sem mikið var haft fyrir að samþykkja á Alþingi. Málið er að enginn Íslendingur neitar að standa í skilum réttmætra og sanngjarnra skulda, en það sem liggur fyrir er banvæn fjárkúgun sem þjóðin og niðjar hennar geta ekki mögulega staðið við með öllum öðrum lánum og okurvöxtum. Þjóðin segir vonandi hingað og ekki lengra, við komum ekki nálægt Icesave kúguninni nema að alþjóða dómsstóll hafi rannsakað og dæmt í málinu. Við verðum að hafa fyrirvara og vexti sem gera greiðslurnar mögulegar. Við verðum að geta greitt allar skuldirnar sem pólitíkusarnir festa þjóðina í.  Jóhanna og Steingrímur vilja telja þjóðinni trú um að ríkisstjórn þeirra hafi náð einhverjum árangri við að reisa efnahag Íslands við sem er einungis ein lygin enn, því í dag fljótum við nær allslaus að feigðarósi á erlendum okurlánum, sem munu sökkva okkur er þau koma að gjalddaga! 
Háttvirtur forseti Íslands sem er eina persóna landsins sem er kosin ópólitískri þjóðkosningu, gerði það sem honum var ætlað að gera samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins í þágu lýðræðis þjóðarinnar og honum skal þakka innilega með virðingu fyrir!!!
Ögmundur, þjóðin stendur einnig í mikilli þakkarskuld við þig, Lilju Mósesdóttur og fjölda annars góðs fólks, að ógleymdu stórkostlegu átaki „Indefence"!
Kveðja, Helgi