Fara í efni

FORSETINN VIRKJAR LÝÐRÆÐIÐ

Sundrungin í þjóðfélaginu hefur því miður orðið til þess að okkur Íslendingum hefur ekki tekist að sameinast um neina víglínu gagnvart kröfum Breta og Hollendinga. Þess vegna þurfum við nú að geta reitt okkur á forseta þjóðarinnar. Hann er sá eini sem getur hafið þetta mál upp úr skotgröfum pólitíkurinnar og þjappað þjóðinni saman til að verja hagsmuni sína. Þetta getur hann gert með því að bera Icesavemálið fyrir þjóðina. Flestir Íslendingar telja nú að draga eigi þessa víglínu um fyrirvara Alþingis sem settir voru á Icesave-ríkisábyrgðina í sumar þrátt fyrir að núverandi frumvarp hafi komist í gegnum þingið. Með Icesave lögunum í sumar sagði þjóðin við alþjóðasamfélagið að íslenskur almenningur ætlar sér að ábyrgjast innistæðutryggingar vegna Icesave þrátt fyrir að ekki hafi verið sýnt fram á að lagaleg skylda stæði til þess og ennfremur þrátt fyrir að Bretar og Hollendingar hafi meinað þjóðinni að fara með málið fyrir dómstóla. Þjóðin setti einungis þá sjálfsögðu fyrirvara á ábyrgðina að hún mætti ekki verða til þess að efnahagur landsins hryndi. Þetta gátu Bretar og Hollendingar ekki sætt sig við og það var gefið eftir. Það er engin reisn fyrir þjóðina að lyppast svona niður gagnrýnislaust gagnvart þessum kröfum. Þetta kæra Íslendingar sig ekki um og það skilur forsetinn okkar vel. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn og trúa því að forsetinn nái að þjappa þjóðinni saman í þessu máli. Standa fastur í fæturna og verja hagsmuni þjóðarinnar.
Ólafur Elíasson, meðlimur í InDefence hópnum