FORSTJÓRI ALCOA SVARAR ÚT Í HÖTT
Ögmundur, í viðtali við Morgunblaðið, miðvikudaginn 13/9 sl., var Alain Belda, aðalsforstjóri ALCOA m.a. spurður um ástæðu þess að einungis stæði til að nota þurrhreinsibúnað í stað þurrhreinsi- og vothreinsibúnaðar. Hann bar fyrir sig niðurstöður Skipulagsstofnunar, sem nýlega birti álit um umhverfismat álversins. Þar kemur fram að báðir kostir væru fullnægjandi til að halda loftmengunneðan tilgreindra marka! Þessi hluti svars forstjórans er vel að merkja réttur. Skipulagsstofnun grundvallar sitt álit á þeirri mengunarviðmiðun, sem gildir innan Evrópusambandins. Þar nýtast ALCOA þeir einstöku kostir að fá tækifæri til að hleypa mun meira magni mengandi efna út í andrúmsloftið yfir Íslandi vegna "hreinleika loftsins", en ella væri ef á Íslandi væri mengandi iðnaður fyrir.
Þegar blaðamaður spurði forstjórann, af hverju fyrirtækið hefði ekki íhugað að setja upp vothreinsibúnað á við þann sem Norsk Hydro hugðist setja upp í Reyðarálbræðslunni sem til skoðunar var að þeir tækju þátt í á sínum tíma, svaraði hann : "Við teljum að þurrhreinsibúnaður komi að bestum notum miðað við það hvernig álverið hér verður rekið. Vothreinsibúnaður skapar önnur umhverfis-vandamál. Hvað gerir maður til dæmis við efnin sem safnast saman í honum? Við rekum mörg álver með þurrhreinsibúnaði og við teljum hann mæta þeim kröfum sem bæði við og ríkisstjórnin gerum, án þess að skapa önnur vandamál."
Þetta makalausa svar hlýtur að krefjast nánari greiningar. Við hvað á forstjórinn, þegar hann fullyrðir að "...þurrhreinsibúnaður komi að bestum notum miðað við það hvernig álverið verði rekið...." ? Væntanlega að þetta sé hagkvæmasta lausnin rekstrarlega fyrir ALCOA, þ.e. það sem ekki kemur fram er að fjárfesting í vothreinsibúnaði er sagður kosta 75-80 milljónir bandaríkjadala. Til viðbótar fellur síðan til árlegur rekstrarkostnaður. Miðhluti svarsins er hinsvegar algerlega út í hött : "Vothreinsibúnaður skapar önnur umhverfis-vandamál. Hvað gerir maður til dæmis við efnin sem safnast fyrir í honum?"
Svarið hlýtur að vera einfalt. Ef um mengandi efni er að ræða, er þeim einfaldlega eytt á viðunandi hátt. En slíkt kostar að sjálfsögðu fjármuni, sem fyrirtæki á borð við ALCOA leggja áherslu á að spara sér. Er enda nokkur ástæða til annars fyrir ALCOA, sbr. síðasta hluta svarsins : "Við rekum mörg álver með þurrhreinsibúnaði og við teljum hann mæta þeim kröfum sem bæði við og ríkisstjórnin gerum, án þess að skapa önnur vandamál."
Þarna kemur ALCOA-forstjórinn að þeim kjarna málsins að ákvörðun um "íþyngjandi aðgerðir" gagnvart álhringnum var á valdi ráðandi stjórnmálaafla, þ.e. ríkisstjórnar Íslands. Það sem hjá öðrum þjóðum tekur nokkur ár, tók í tilfelli ALCOA nokkrar vikur, þ.e. samningar um að þeir "slægju til" og reistu álbræðslu á Íslandi. Fyritæki sem hefur ekki séð hentugt færi til slíks í 20 ár, hljóta að bjóðast "ein
Síðasti hluti svars aðalforstjóra ALCOA "... án þess að skapa önnur vandamál ", er í himinhrópandi mótsögn við þær nöturlegu staðreyndir sem við blasa og sífellt koma betur í ljós vegna framkvæmda við Kárahnjúka. Á grundvelli óraunhæfrar draumaáætlunar Landsvirkjunar um framkvæmda- hraða og kostnað vegna á þeim tíma fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda, var af hálfu Landsvirkjunar gerður raforkusölusamningur við ALCOA til 2 x 20 ára.
Þrátt fyrir síendurteknar yfirlýsingar Landsvirkjunar að framkvæmdin sé nánast á kostnaðaráætlun, má ljóst vera að kostnaður við borframkvæmdir og risastíflu hafa nú þegar farið langt fram úr áætlun um framkvæmdakostnað. Borframkvæmdin hefur reynst mun umfangsmeiri en ráð var fyrir gert. Endurhönnun risastíflu og undirstöðu undir hana, auk vandamála sem tengjast sprungum, sem ekki var gert ráð fyrir, sem kallað hafa á viðamiklar “mótvægisaðgerðir”, þýða einfaldlega stóraukinn framkvæmdakostnað umfram það sem grundvöllur LSV að raforkusölusamningi gerði ráð fyrir.
Kveðja,
Sveinn