Fara í efni

FRÁ SJÓNARHÓLI SANNGIRNINNAR

Ég hlustaði á þáttinn Í Vikulokin í RÚV. Umræðurnar voru ágætar um margt. Mér fannst málflutningur Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur sannfærandi þegar hún færði rök fyrir því að nú væru forsendur til að færa Icesave inn í nýjan farveg í ljósi þess að málstaður Íslands nyti nú betri skilnings en áður á erlendri grundu. Kristján Þór Júlíusson heyrðist mér einnig vera á þessu máli. Aðalsteinn Leifsson taldi hins vegar að staða Íslands væri þrengri nú en áður. Mér fannst umhugsunarvert að heyra þá Kristján og Aðalstein ræða annars vegar hvort Bretar og Hollendingar væru líklegir til að gefa eftir (einsog Aðalasteinn spurði) og hins vegar hvort Bretar og Hollendingar myndu sætta sig við samninginn ef þeir væru í stöðu Íslands (einsog Kristján spurði). Þetta er nálgun deiluaðila. Nálgun Guðfríðar Lilju var hins vegar í því fólgin að spyrja hvort hægt væri að færa málið úr farvegi deiluaðila að togast á og þess í stað nálgast málið sem sáttagjörð með milligöngu alþjóðlegs sáttasemjara eða málamiðlara. Þetta er góð nálgun því hún byggir ekki á því að skoða málið frá sjónarhóli annað hvort Breta og Hollendinga eða Íslendinga heldur frá sjónarhóli sanngirninnar. Þarna liggur lausnin fyrir þjóð sem á sér sanngjarnan málstað.
Sunna Sara