FRAMSÝNI HEFUR ÖÐLAST NÝJA MERKINGU
Sæll Ögmundur
Ekki veit ég hvort okkur hér á Snotru misheyrðist, þegar menntamálaráðherrann okkar lýsti því yfir á Akureyri nýlega, að það sýndi framsýni hjá skólastjórn Háskólans á Akureyri að leggja niður tvær deildir af sex. Sjálfsagt hefði skólastjórnin að mati ráðherrans sýnt enn meiri framsýni ef hún hefði ákveðið að leggja skólann allan niður. Sjálf hefur Þorgerður menntamálaráðherra sýnt mikla framsýni í málefnum Listdansskóla Íslands því hún tilkynnti nýlega að til stæði að loka þeim skóla fyrir fullt og allt. Þessu var mótmælt eins og þeirri framsýni ráðherrans að vilja stytta framhaldskólann. Þá sagði Þorgerður ráðherra að stjórnmálamenn þyrftu að hafa þrek til að gera það sem óvinsælt er. Þetta þykir okkur svolítið skrýtið hér í Snotru. Við stóðum nefnilega í þeirri trú að almennt séð ætti ríkisstjórnin að framkvæma það sem fólkið í landinu vildi. Þetta var hins vegar áður en það var skýrt fyrir okkur hvað það þýðir að vera framsýnn.
Runki frá Snotru