Framtíðarskipan í menntamálum
Sæll Ögmundur!
Ég las grein eftir þig í Mogganum þar sem þú fjallar um Háskólann í Reykjavík og þær hugmyndir sem Guðfinna rektor hefur haft um rekstrarform skólans. Ég er þér algjörlega ósammála varðandi það að þessar hugmyndir þeirra Guðfinnu og rektorsins á Bifröst séu ekki til góðs fyrir háskólalífið á Íslandi. Ég tel Háskólann í Reykjavík hafa gjörbreytt landslaginu hérna til hins betra í háskólalífinu og veitt HÍ tímabært mótvægi. Mig langar hins vegar að vita nánar hvaða hugmyndir þið í VG hafið um framtíð Háskólans í Reykjavík. Ég er nemandi hérna og skiptir þetta mig því miklu máli.
Árni Gunnarsson
Sæll Árni og þakka þér bréfið!
Við því er lítið að gera að við skulum vera ósammála um framtíðarskipan í menntamálum enda ekki við öðru að búast en að um þetta séu skiptar skoðanir. Ég reyndi að skýra mín sjónarmið í Morgunblaðsgreininni sem þú vísar í en hana er nú einnig að finna hér á síðunni. Þar kemur fram það sjónarmið að mér finnist sjálfsagt að nýjar menntastofnanir á borð við Háskólann í Reykjavík komi til sögunnar og að þær njóti stuðnings skattgreiðenda. Því fer fjarri að ég vilji á nokkurn hátt gera lítið úr Háskólanum í Reykjavík og starfsemi innan hans veggja. Mér finnst það hins vegar ekki sjálfgefið að allir sem vilja setja á fót menntastofnun skuli sjálfkrafa öðlast heimild til að seilast í skattpyngjurnar. Þarna þarf einfaldlega að finna heppilega blöndu í fjármögnun. Njóti háskólar stuðnings frá atvinnufyrirtækjum og taki skólagjöld þá ber að taka tillit til þess varðandi fjárstreymið úr ríkissjóði. Ef allir fá það sama þaðan, óháð utanaðakomandi stuðningi, þá mun það einfaldlega leiða til þess að Háskóli Íslands verður fyrr eða síðar knúinn til að sækjast einnig eftir skólagjöldum og fjárstuðningi úr atvinnulífinu. Það tel ég ekki heppilegt af ýmsum ástæðun sem ég meðal annars vísa til í grein minni. Háskólanum í Reykjavík óska ég alls góðs og vona að hann og þeir sem þar eru innanborðs eigi bjarta framtíð.
Með kveðju,
Ögmundur