FRÉTTAMENN Á ÖÐRUM FUNDI?
Komdu sæll Ögmundur, og takk kærlega fyrir ræðuna í gær. Hún snart mig djúpt eins og svo oft þegar þú talar. Ég held það sé þessi "sanni" réttlætistónn sem er svo hressandi að heyra, nú þegar þjóðfélags og stjórnmálaumræðan einkennist af flatneskju og moði. Svei mér þá ef ræðan minnti mig hreinlega ekki á aðra góða ræðu úr þínum fórum sem fól í sér skilaboðin um að innst inni séum við öll vinstri græn. Það eru orð að sönnu. Þegar ég kom heim hlakkaði ég til að hlusta á fréttir af fundinum. En var mig að dreyma? Greinilega voru fréttamennirnir ekki á sama fundi og ég því svo virtist sem hæstvirtur utanríkisráðherra með sínar "áhyggjur" af ástandinu á Gasa hefði verið aðalræðumaður fundarins. Og í 24 stundum í morgun er aðalfréttin kveðjan frá henni og að íslensk stjórnvöld hafi hysjað upp um sig buxurnar og fordæmi nú framferði Ísraelsmanna. Vona að rétt sé en við séum ekki enn einu sinni vitni að yfirlýsingagleði sem gleymist svo "oní skúffu", sbr. eftirlaunafrumvarpið sem þér hugnaðist ekki.
Með kveðju,
Sigríður Andrésdóttir
Sæl Sigríður.
Þakka þér hjartanlega bréfið og hlý orð í minn garð.
Kv. ,
Ögmundur