FRÉTTASKÝRENDUR OG BJÖRN BJARNASON
Sæll Ögmundur.
Merkilegt hve fréttaskýrendur eiga erfitt með að staðsetja og skilgreina Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra. Ég hef aldrei átt erfitt með hann. Man eftir honum í gamla daga. Hann er eldhugi sem berst fyrir hugsjónum sínum. Svo einföld er mín skilgreining. Menn eru að þvæla um það út og suður hvort Björn Bjarnason verði ráðherra eða ekki. Getur Sjálfstæðisflokkurinn verið þekkur fyrir að hleypa Birni Bjarnasyni ekki að, er spurt. Væri það ekki staðfesting á að Baugur hefði beygt Björn, ef hann yrði ekki ráðherra? Fjarri því að mínum dómi, og ég læt mér raunar ekki til hugar koma að Björn taki sæti í Baugstjórninni. Ég held að þessi eldhugi afþakki setu í þeirri stjórn. Pólitískt er hann búinn að ná toppnum og hann er staðfastari en svo að hann láti glepjast af ráðherradómi, ef hann þarft að gefa afslátt af skoðun sinni. Burtséð frá skoðun hans er það í þessu sem stærð hans felst. Björn Bjarnason fellur ekki í sömu gryfju og einhverjir kjósendur Sjálfstæðisflokksins gerðu því miður, að láta auðmann glepja sig til að strika út frambjóðanda með því að bera á hann, og aðra menn, mjög alvarlegar ásakanir. Ég segi því miður í þessu sambandi vegna þess að mér þótti auðmaður beita valdi sínu fautalega og mér finnst kjósendur sjálfstæðismanna hafa farið óvarlega með það sem ætti að vera þeim kærast. Ég vona að við séum mörg sem bíðum eftir því að fréttaskýrendur og leiðarahöfundar taki til alvarlegrar umræðu áhrif auðmanna á opinberar umræður með auglýsingum, og með því að hafa menn í vinnu. Kannske þurfum við að bíða jafn lengi eftir umræðum um það eins og viðbrögðum við því að tugur atkvæða Íslendinga í útlöndum voru ónýtt fyrir mistök. Er það ekki álíka alvarlegt fyrir lýðræðiselskandi þjóð og ef upp kæmu 102% atkvæða úr kjörkassa í Reykjavík norður? En spá mín er sem sé sú að Björn verði ekki í Baugsstjórninni.
kveðja,
Ólína