FRÉTTASKÝRINGAR OG KU
Sæll Ögmundur.
Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, skrifar lítinn dálk í Morgunblaðið í dag um ku. Tilefnið er útleiðari í Fréttablaðinu, slúðurdálkurinn þar sem stundum er níðst á mönnum rétt eins og DV besætning tiltekins tímabils sé öll komin yfir á Fréttablaðið. Og Davíð tekst vel upp svo sem við var að búast. Útleiðari Fréttablaðsins og umfjöllun seðlabankastjóra um hann beinir sjónum mínum að svokölluðum fréttaskýringum Morgunblaðsins sem birtast nú á forsíðu blaðsins. Eða þeirri ákvörðun Styrmis og Einars að láta tiltekinn blaðamannahóp verða sýnilegri og gefa þeim meira frelsi til að auka spennuna á efni blaðsins, koma því á milli tannanna á fólki.
Það er með fréttaskýringar eins og slúðrið. Það er hægðarleikur að setjast niður með fyrirframgefnar skoðanir eða leiðsögn, skrifa og finna hnittna fyrirsögn á krógann og láta svo gamminn geysa. Og það þarf meira að segja ekki að taka mjög langan tíma. Niðurstaðan af svona vinnu verður oft ku, þótt sá fyrirvari ábyrgðarleysisins sé klæddur í búning eins og “samkvæmt mínum upplýsingum” eða “ef marka má ummæli samfylkingarfólks sem ég ræddi við í gær” svo dæmi séu tekin. Samfylkingin í dag, VG á morgun.
Það þarf ekki langan tíma til að viða að sér efni í fréttaskýringar en formið getur orðið eins og stórgrýtt fjara yfirferðar ef menn vanda sig ekki við úrvinnsluna og framsetninguna. Það er til dæmis hraustlega gert að ráðast gegn nýjum framkvæmdastjóra Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Gunnari Ó. Haraldssyni, og saka hann um að senda frá sér pantaða skýrslu með pöntuðum niðurstöðum í Straumsvíkurmálinu eins og gert er í fréttaskýringu á forsíðu Morgunblaðsins. Ásakanir sem skýrandinn setur fram klæddar í búninginn “samfylkingarfólk sem ég ræddi við í gær” og tekur svo upp í fyrirsögn fréttaskýringarinnar. Það sem seðlabankastjórinn segir í athugasemd sinni um ku á ekki alveg illa við um fréttaskýringar með þessu sniði.
Þegar við vorum í Bretlandi, ég og eiginmaður minn, komst ég næst því að verða hrifin af fótbolta þegar ég sá Kevin Keegan leika listir sínar. Um fréttaskýringar af þessu tagi finnst mér eiga vel við það sem hann segir í breska blaðinu Independent í dag “None of those stories had anything to do with reality. But that's the way the media work. Let's just write it, and we'd better not check it up because that might kill a good story." Auðvitað hefði fyrirsögnin orðið öðru vísi ef td. ásakanir í garð Hagfræðistofnunar um pantaða skýrslu og pantaða niðurstöðu hefðu verið bornar undir forstöðumanninn, sem ég mér er sagt að sé heiðaralegur maður, en hún hefði orðið efnislegri og minna ku. Og ekki hefði verið hægt að draga upp myndina af stjórnmálaflokknum sem um var rætt með sama æsilega hætti og gert var.
Ruglið og ónákvæmnin í pólitískum skrifum er farinn að pirra mig Ögmundur og ég vona að VG haldi sig áfram við það sem er og ekki við það kvað vera. Þið þurfið ekki að kvíða neinu ef þið verðið áfram hrein, bein og heiðarleg. Það er skýringin á góðu gengi.
Kveðja
Ólína