Fara í efni

FRÉTTIR EÐA STUNDIN OKKAR?

Sæll Ögmundur,
Ég hef velt því fyrir mér undanfarið hvernig fréttamiðlar á Íslandi meta hvað er frétt og hvað ekki og ekki síður hvaða  sjónarhorn fréttamenn taka á sín viðfangsefni.
Þessa dagana stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að stefna stjórnvalda s.l. 17 ár hefur leitt til geigvænlegrar skuldsetningar þjóðarinnar og liðkað fyrir ráni auðmanna á eigum almennings og sparnaði.  Framundan eru fyrirsjáanleg gjaldþrot þúsunda heimila og fyrirtækja og hörmungar sem við getum varla gert okkur í hugarlund nú.
Þrátt fyrir þetta  virðist  sem  fréttastofa Rúv (og fleiri miðlar) telji mikilvægasta atriðið í umfjöllun um mótmæli almennings, hvort mótmælin séu "eðlileg", hvaða fólk þetta sé, hvað ráðamönnum nú finnist um aðgerðir mótmælenda og svo framvegis. Semsagt, allt gert til þess að gera mótmæli og ekki síður mótmælendur tortryggileg. 
Þetta toppaði nú þegar Vigdís Hjaltadóttir kommenteraði á flokksráðsfund VG í fréttum - að "hér kannast maður nú við mörg andlit af Austurvelli"!!! Semsagt, ekkert að marka mótmælin á Austurvelli, bara eitthvert lið úr VG -eða skríllinn, eins og Geir Hilmar Haarde, svokallaður forsætisráðherra lýðveldisins kallar mótmælendur. Þá virðast fréttastofur ávallt leggja áherslu á að gera lítið úr fjölda mótmælenda - en 4000 manns á Austurvelli  er ekki fámenni. Sambærileg mótmæli í Bandaríkjunum þýddu, miðað við höfðatölu að þar væru 4 milljónir manna samankomnar.
Nú berast þau tíðindi af blogginu, að  ríkisstjórnin hafi látið kalla forsvarsmenn fréttamiðla landsins á teppið. Þarna munu hafa verið fulltrúi Ruv, líklega Páll Magnússon, fréttaþulur og útvarpsstjóri, ritstjóri Fréttablaðsins, Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og sendiherra m.m  (já þetta er allt einn og sami maðurinn) og svo ritstjóri Mbl. Ólafur Stephensen, yfirlýstur Sjálfstæðismaður og ákafur boðberi frjálshyggju og markaðshugsunar.
Þessi fundur mun  hafa verið haldinn til þess að biðja fréttastjórana um "gott veður", að fréttastjórar hafi verið hvattir til þess "að kæla kreppuna" og "dempa" fréttaflutning af þeim hörmungum, spillingu og óskunda sem þessi sömu stjórnvöld hafa kallað yfir okkur!! Nú er margt skrafað í bloggheimum - og ekki skal ég segja til um hvort  eitthvað er til í þessum fréttum. En ljótt er það ef þetta er satt.  
Ástæðan fyrir því að ég er ekki viss, er sú staðreynd að sumir fréttatímar, sjónvarpsins t.d., minna um margt meira á hinn annars ágæta barnaþátt Stundina Okkar. Þegar komið er fram yfir miðjan fréttatíma er nánast orðið venjan að sigla inn í  ekki eina, ekki tvær heldur margar "human interest" fréttir af gerðinni "ketti bjargað úr tré". Sem dæmi nefni ég fréttatíma mánudaginn 8. desember þar sem fréttastofan fjallar með afar ítarlegum hætti um myndlistarsýningu fyrir grunnskólanema, smygl gæludýra til Ítalíu og handverksmann sem sker út fulga. Allt góðar og gjaldgengar fréttir - en  þetta gekk svo langt að ég hélt ég væri kominn yfir í annan dagskrárlið - Stundina Okkar eða ámóta.
Nú ert þú gamall fréttamaður sjálfur - hvert er þitt mat á frammistöðu fjölmiðla á þeim víðsjárverðu tímum sem nú eru?
Getur það verið að ríkisstjórnin beiti fjölmiðla þrýstingi til þess að þeir fjalli ekki um ástandið eins og það raunverulega er?
Kristófer

Það væri fróðlegt að heyra svör forsvarsmanna fjölmiðlanna um hvort það er rétt að þeir hafi verið kallaðir á teppið. Ef fjölmiðlarnir hefðu staðið vaktina á undanförnum árum væri ekki komið fyrir okkur einsog raunin er. Að ekki sé minnast á stjórnvöldin. Að ógleymdum sjálfum bófunum.
Kv.
Ögmundur