FULLKOMIÐ ÁBYRGÐARLEYSI
Blessaður Ögmundur.
Þúsundir urðu fyrir óþægindum þegar Icelandair flugfélagið neitaði að koma til móts við kröfur flugvirkja. Þetta er að mínum dómi fullkomið ábyrgðarleysi hjá flugfélaginu þegar horft er til hagsmuna heildarinnar, til hagsmuna samfélagsins alls. Þjóðin þarf ferðamenn, ferðamenn sem eyða og spenna, okkur til hagsbóta og Icelandair flugfélagið er að reyna að koma í veg fyrir þetta. Afstaða fyrirtækisins varð til þess að meirihluti Alþingis varð að samþykkja lög og grípa með því inn í deiluna og ganga gegn alþjóðlegum skuldbindingum sínum á vinnuréttarsviði. Allt vegna stífni fyrirtækisins. Sem áhugamanneskju um samfélagsmál þykir mér verst að talskona Samtaka ferðþjónustunnar skuli hafa látið hjá líða að beita sér í málinu, eins og hún gerir jafnan þegar deilur eru uppi sem sannanlega skaða ferðaþjónustuna. Hún á að gæta hagsmuna þjónustufyrirtækja í ferðaþjónustunni og hefði átt að gagnrýna Icelandair flugfélagið fyrir að stofna fyrirtækjunum í voða með því að neita að semja við flugvirkjana. Til allrar hamingju er samhljómurinn milli Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðsins að ekki þarf að hneppa starfsemi SA og Viðskiptaráðs í lög og setja með þeim skorður við starfsemi þessara tveggja stofnana.
Kveðja
Jóna Guðrún