Gagnagrunnurinn og ráðherrann
Komdu sæll Ögmundur.
Ég vil þakka þér fyrir að krefjast þess á Alþingi í gær að lögin um gagnagrunn á heilbrigðissviði verði endurskoðuð. Reyndar finnst mér það ekki vera nýjar fréttir að gagnagrunnurinn stríði gegn siðareglum lækna. Ég man ekki betur en þessu væri haldið fram þegar lögin voru samþykkt á sínum tíma. En eru nokkrar líkur á því að Alþingi breyti einhverju jafnvel þótt sest verði yfir málið að nýju, ekki lofa viðbrögð Valgerðar Sverrisdóttur ráðherra frá í gær góðu? Hún virtist strax búin að ákveða niðurstöðuna, að þetta væri bara upphlaup og ekkert annað.
Finnur
Komdu sæll Finnur.
Ég þakka þér bréfið. Það er alveg rétt að viðbrögðin voru nokkuð ólundarleg. En eftir að hafa skoðað samþykkt Alþjóðasambands lækna, kynnt mér umfjöllun Læknablaðsins og rætt við þann forsvarsmann Læknafélags Íslands sem best þekkir til málsins,Jón Snædal, varaformann LÍ, sem sat aðalfund alþjóðasambandsins fyrir hönd íslenskra lækna, þá sannfærðist ég um að það væri fullkomið ábyrgðarleysi að setjast ekki yfir gagnagrunnslögin að nýju. Þess vegna var málið tekið upp á Alþingi í gær. Túlkun ráðherra var hins vegar sú að stjórnarandstaðan hefði hlaupið upp til handa og fóta eftir hádegisfréttir í útvarpi. Staðreyndin er að þetta mikla álitaefni hefur verið til umfjöllunar lengi og þeir sem fylgjast með hafa lengi vitað að vænta mátti ályktunar frá Alþjóðasamtökum lækna. Ég vona að þessi vanhugsuðu viðbrögð ráðherrans séu ekki dæmigerð fyrir aðra stjórnarþingmenn og að þeir setjist ekki yfir málið aðeins til málamynda. Í ályktun Alþjóðasambands lækna segir á þá lund að ef leyfa eigi þriðja aðila að nota gögn úr sjúkraskrá einstaklings skuli leita samþykkis hans. Þetta eigi við um alla aðra notkun en þá sem snertir beina meðferð sjúklingsins. En frá þessu geta verið afmarkaðar undantekningar. Um það efni hefur varaformaður Læknafélags Íslands sagt: “Ég fæ ekki séð að þessar undantekningar eigi við um íslenska gagnagrunninn enda erfitt að halda fram að svo yfirgripsmikill grunnur geti talist afmarkað tilfelli.” Fram hefur komið að forstjóri Íslenskrar Erfðagreiningar er ekki sammála þessari túlkun. Verkefni Alþingis er að skoða málið í þaula.
Með kveðju, Ögmundur