Fara í efni

GAGNRÝNI ÞARF AÐ EIGA VIÐ RÖK AÐ STYÐJAST

Heill og sæll Ögmundur, Rak augun í eftirfarandi á heimasíðu þinni: ,,Fréttastofum RÚV hefði verið í lófa lagið að snúa frásögninni við og segja að RÚV ohf ætlaði að láta fyrrnefnda peningaupphæð renna til dagskrárgerðar í samkrulli við stórefnamanninn Björgólf Guðmundsson. Það var ekki gert heldur dæminu stillt þannig upp að Björgólfur væri í reynd að styrkja RÚV ohf." Þar sem ég vann fréttina vil ég spyrja að því hvernig þú færð þetta út?? Ég nefndi hvergi styrk til RÚV á nafn í fréttinni, þvert á móti. Og í viðtali við mig útlistar dagskrárstjóri Sjónvarpsins í hverju samningurinn felst. Það er að peningurinn renni til þriðja aðila en ekki RÚV. Fjölmiðlamenn eru ekki yfir gagnrýni hafnir, og tek ég henni fyrir mitt leyti fagnandi. Ég vil hins vegar að hún eigi við rök að styðjast. Með vinsemd,
Guðfinnur Sigurvinsson,
fréttamaður Sjónvarps

Þakka þér fyrir bréfið Guðfinnur, sem barst mér 12. nóv. og bið ég þig að fyrirgefa að svara því ekki fyrr. Þetta kann að hafa verið klaufalega orðað hjá mér og biðst ég þá afsökunar á því. Mér þótti hins vegar allt yfirbragð þessa fréttamannafundar vara á þá lund að þarna væri eina ferðina enn kominn hinn mikli velgjörðarmaður íslensk samfélags að líkna og lækna. Nú væri það RÚV sem nyti góðs af. Ég saknaði miklu gagnrýnni viðbragða almennt af hálfu fréttamanna við því að Ríkisútvarpið skuli vera komið í samkrull við stórefnamann hvað varðar dagskrárgerð. Forsvarsmenn RÚV hafa reynt að þvo þessa túlkun af sér en sá þvottur er í mínum huga ekkert annað en kattaþvottur. Eftir stendur að dagskrárefni sem sérstaklega verður framleitt fyrir RÚV ohf greiðir auk RÚV ohf, Björgólfur Guðmundsson. 
Með kveðju,
Ögmundur Jónasson