Fara í efni

Græddur er geymdur eyrir, kakóið og kökurnar eru tilbúnar

Í framhaldi af umfjöllun Moggans 14. maí, um fátækt í Reykjavík, fórum við nokkrir félagar í vinnuflokkadeild OR að ræða um fátækt, við rifjuðum upp lýsisgjafirnar og hvernig við sem gengum um í bættum fötum urðum fyrir hæðnisglósum. Einn sagði frá móður sem bjó í bragga með syni sínum. Hún kom iðulega fram í dyr braggans og kallaði á soninn og sagði hárri röddu svo allir heyrðu, að kakóið og kökurnar væru tilbúnar. Allir vissu að engar voru kökurnar og ekkert kakóið.
Nú er grunnskólinn einsetinn, heitur matur í hádeginu, sem margir hafa ekki efni á. Fátækustu börnin verða að láta sér nægja matarilminn ofan í garnagaulið. Við vorum sammála um að matur þyrfti að vera ókeypis í grunnskólunum. Niðurstaða umræðnanna var að rétt væri að bankarnir yrðu látnir fjármagna hádegismat barnanna, minnugir þess að þeir rændu okkur í barnaskólunum hér um árið undir slagorðinu "græddur er geymdur eyrir". Ég á ennþá bankabókina mína með gömlum 500kr.  Nú græða bankarnir milljarð á mánuði, sem er örlítið brot af matarkostnaði grunnskólanema.
Rúnar