Fara í efni

GREIN ÞÍN ÁTTI ERINDI!

Sæll Ögmundur.
Ég vil skrifa þér nú vegna viðbragða á netinu við Morgunblaðsgreininni um Evrópusambandið sem birtist í vikunni og hefur valdið nokkrum styr. Sjálf er ég ekki Evrópusinni aðallega vegna þess að ég er ekki heimsvaldasinni. Ég hef ekki trú á því að ríkar Evrópuþjóðir eigi að rotta sig saman í viðskiptalegum hagsmunamúr og beita stofnunum eins og Alþjóðaviðskiptastofnuninni og öðrum viðlíka til að halda fátækari hluta heimsins fátækum. Íslenskir Evrópusinnar eru þó flestir meira fyrir að lýsa ESB sem friðarbandalagi en líta framhjá því að þetta er eðlilegt framhald nýlendustefnunnar þar sem innflutningur frá fyrrum nýlendum er tollaður hátt ef um er að ræða unnar vörur, en framleiðsla sambandsins er niðurgreidd til útflutnings til sömu svæða. Að sjálfsögðu getur alþjóðlegt samstarf verið göfugt og gott en það þarf ekki að vera það. Það er einmitt það sem grein Rompuys frá í vor sannar. Þar setti hann nokkuð afdráttarlaust að heiminum er skipt upp í flokkana „við" og „hinir" (eins og þú bentir á í þinni grein) þar sem „við" stefnum að því að vera rík forréttindastétt. Mér fannst þetta frekar skrýtið útspil hjá manninum í ljósi þess að hann er að tala við smáþjóð í aðildarviðræðum. Þetta er nánast hótun um hvaða örlög myndu bíða okkar ef við semjum ekki. Það sem mér fannst öllu alvarlegra í þessu máli var hversu litla athygli þessi blaðagrein Rompuys vakti. Ég hélt sjálf að það væri kannski bara vegna þess að þarna birtust viðhorf öfga-evrópusinna sem þyrfti ekki að ræða. Viðbrögðin við þinni grein hinsvegar sanna hið gagnstæða. Þar rís fjöldi manna æfur upp með þann málstað að ekki megi tala um Evrópu nema með þeim hætti sem þeir sjálfir kjósa - sem bandalag friðelskandi þjóða með það eina markmið að bæta heiminn. Einmitt þessi viðbrögð sanna að þín grein átti erindi, þó svo að þú hafir trúlega valið þér orðfæri sem voru til þess fallin að æra óstöðuga.
Birna